Strembið að skjóta sumarmynd í október – Sigríður Björk útskrifast í annað sinn úr KVÍ
Sigríður Björk Sigurðardóttir útskrifast úr Skapandi Tækni nú í desember og vinnur þessa dagana að útskriftarmynd sinni.
Myndin mín fjallar um eldri konu sem rifjar upp gamla tíma. Sumarið sem hún mun aldrei gleyma en handritið af myndinni vann ég út frá eigin ljóði og draumi sem mig dreymdi. Ég man þó ekki hver draumurinn var núna en man að hugmyndin kom út frá þessum ákveðna draumi eftir að ég var búin að ákveða að vinna út frá einmitt þessu ljóði. Ljóðið skrifaði ég fyrir tæpum tveimur árum.
Sigríður Bjök segir að undirbúningur og vinnsla myndarinnar hafi verið mjög krefjandi.
Undirbúningsferlið var nokkuð strembið þar sem ég ákvað að skjóta sumarmynd í október. Ég skaut sem sagt útimynd inni. Einnig var ég að vinna út frá periodu, ekki beint hreina og tæra periodu en tók periodu element sem ég fíla. Af þeirri ástæðu skipti allt look máli: búningar, hár, props og leikmynd. Ég var með mest osom crew og tökurnar voru ótrúlega skemmtilegar. Leiðbeinendurnir voru líka allir alveg frábærir.
Námið segir Sigríður Björk hafa nýst sér vel að öllu leyti.
Ég vissi nánast ekkert um bíó þegar ég hóf nám í leiklist við skólann, en það nám kláraði ég og kom svo aftur hingað í Skapandi Tækni þaðan sem ég útskrifast nú. Ég hefði náttúrulega aldrei gert neitt í líkingu við þetta ef maður hefði ekki verið búin að fara í gegnum þetta nám. Auðvitað eru alltaf viss svið sem maður hefði gjarnan viljað læra meira í eða maður hefði getað hugsað sér að velja eitthvað sérsvið, en á sama tíma gaman að kunna grunninn í flestu.