Eyþór Jóvinsson með Gamanmyndahátíð Flateyrar um helgina

Á  morgun hefst Gamanmyndahátíð Flateyrar en þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin. Það er nemandi í Kvikmyndaskóla Íslands sem á heiðurinn af hátíðinni, Eyþór Jóvinsson en hann hefur þegar getið sér gott orð fyrir myndir sínar. Mörgum er í fersku minni mynd hans sem einnig tengist Flateyri, Amma sem vann fyrstu verðlaun í Örvarpanu hjá Rúv í fyrra.

 

Hugmyndin að hátíðinni kviknaði á annari kvikmyndahátíð þar sem ég var búinn að sitja yfir þungum og átaklegum myndum allan daginn. Allt voru þetta flottar myndir og falleg kvikmyndagerð um mikilvæg málefni en þetta var bara svo helvíti leiðilegt. Þá hugsaði ég með mér hvort að það væri ekki svona einu sinni hægt að gera kvikmyndahátíð sem væri fyrst og fremst skemmtileg. Þar sem alvarleikinn er aðeins settur til hliðar og gleðinni gert hátt undir höfði.

Eyþór fer ótroðnar slóðir að halda hátíð sína á Vestfjörðum en hvar verða myndirnar sýndar?

Hugmyndin  er fyrst og fremst að skemmta fólki og hafa gaman. Hátíðin verður haldin eins og nafnið gefur til kynna  á Flateyri og verða  sýningar  víðsvegar um þorpið, t. d. í sundlauginni og í gömlum bræðslutanki.

Eftir helgi verður hátíðin að baki og við tekur skólastarfið. Hvað er framundan í allra næstu framtíð?

Næst á dagskrá eftir að hátíðinni er lokið er að hitta deildastjórann til að semja um lausn á þeim áfanga sem ég missi af í byrjun annarinnar.  Þar á eftir fer vinna við útskriftarmyndina mína á fullt, en stefnan er einmitt að taka hana upp á Flateyri. Svo er ég með handrit í umsóknarferli hjá Kvikmyndamiðstöð, og vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr því svo maður geti hellt sér í hana að loknu námi.