Barða Guðmundssyni gengur vel með myndir sínar

Vorið 2015 útskrifaðist Barði Guðmundsson úr Deild 3, Handritum/leikstjórn. Síðan þá hefur hann unnið markvisst að verkefnum sínum og er nú kominn með tvö glæsileg verkefni vel á veg.

Ég hef verið að vinna við handrit að mynd í fullri lengd. Ég er nú búinn að fá tvo handritastyrki frá Kvikmyndasjóði ég vann handritið í Kvikmyndaskólanum undir leiðsögn meistarans Hrafnkells Stefánssonar, deildarstjóra.

Vinnsluheiti kvikmyndar er “Upp með hendur” en það fjallar um tvo ólíka eldriborgara sem deila herbergi á öldrunarheimli og kemur þeim mjög illa saman.

Á sama tíma er verið að byggja nýja fangelsið á Hólmsheiði þar sem mikill lúxus bíður fanganna. Þeir gömlu taka sig saman, ákveða að ræna banka og láta handtaka sig á staðnum. En þeir komast upp með ránið og sitja uppi með milljónir milli handanna.

Framleiðendur eru nú að skoða efnið en til að sækja um síðasta styrkinn verða þeir að vera með í verkefninu.

Meðframleiðandi er Hannes Þór Arason sem  hefur strax frá því að loglínan birtist í útskriftarbæklingnum, sýnt þessu mikinn áhuga.

En Barði lætur sér ekki nægja það eitt að vera með mynd í fullri lengd í smíðum heldur er hann einnig að vinna að gerð heimildarmyndar.

Ég er líka að gera heimildamynd um flúoreitrun í hrossum á bæ í Hvalfirði í námunda við álverksmiðjuna. Ég gerði í skólanum hjá Steingrími Dúa Mássyni tuttugu mínútna mynd um sama efni. Mér fannst þetta svo aðkallandi viðfangsefni að ég ákvað að gera heimildamynd í fullri lengd og stefni að frumsýningu hennar næsta vor.

Og Barði ber góða söguna.

Námið við skólann hefur nýst mér mjög vel og það segir sig sjálft að þessi verkefni sem ég vinn að hefðu ekki orðið til án skólans. Svo kynntist ég frábæru fólki, bæði samnemendum og leiðbeinendum sem hafa hjálpað mér ómetanlega.