Bolli Már með nýjan þátt á RÚV
Bolli Már Bjarnason útskrifaðist frá Leiklist í Kvikmyndaskólanum í desember 2015 og var að byrja nýja þáttaröð á Rúv, “HEE-TV”. Við fengum aðeins að forvitnast
Manstu hvenær kvikmyndir heilluðu þig fyrst ?
Í hreinskilni sagt þá nei, er enginn kvikmyndanörd eða með dálæti á þessu klassíska sem fólk talaði mest um þegar ég var í skólanum. Ég horfði mikið á “Detroit Rock City”, “Ali G” og “Íslenska drauminn” þegar ég var yngri.
Hvers vegna fórst þú í kvikmyndagerð og valdir Leiklist?
Langaði að læra leiklist, fór mjög blint inn í þetta allt saman. Fannst þetta töff og heillandi. Ég var ekki með neinn grunn, bara tilfinningu fyrir því að þetta væri flott fyrir mig. Var á alvöru krossgötum og sá tækifæri þarna.
Hvernig gekk námið?
Námið gekk lala, ég sé alltaf eftir því að hafa ekki gefið meira. Mjög þakklátur fyrir mörg tímabil innan skólans. Ég hef nýtt mér námið alveg ótrúlega vel á endanum.
Hver voru fyrstu skrefin eftir útskrift?
Vinna hjá Morgunblaðinu í einhverri handavinnu ásamt því að reyna að fá verkefni í leiklist. Fór svo að vinna í gamla grunnskólanum mínum, Laugalækjarskóla. Það var gott og svolítið fallegt allt saman, algjört topp fólk að vinna þar sem hafði líka þurft að hafa fyrir mér þegar ég var þar sem nemandi. Ég var létt stressaður að hitta alla gömlu kennarana. Meðfram því var ég að koma mér í hin og þessi verkefni.Svo fór ég að vinna hjá Pipar/TBWA og það breytti öllu. Ég hef lært og þroskast mikið þar. Búinn að vera þar síðustu þrjú ár. Þar fæ ég tækifæri í svo mörgu og læri helling af öllu frábæra fólkinu hérna sem eru náttúrulega bara góðir vinir mínir í dag.
Hvaðan kom hugmyndin að nýja þættinum sem var að fara af stað á RÚV ?
Þetta bara datt í hausinn á mér í vinnunni, örugglega allskonar ástæður fyrir því að nákvæmlega þessi hugmynd kom, ég greini það síðar. Ég heyrði strax í Dóra Gylfa, leikara sem ég þekki í gegnum Knattspyrnufélagið Þrótt, og bað hann um að gera “pilot” með mér. Hann var klár enda alvöru meistari. Hlakka til að sá þáttur birtist, vel hrár en ofboðslega skemmtilegur.
Hver er hugsunin á bakvið þættina?
Ótrúleg ósannindi sett fram á sannfærandi hátt. Spuni og leikgleði. Allt fær að flakka og allt er mögulegt. Ég er með umræðuefni sem við fyllum svo inn í og reynum að gera sem besta sögu úr. En svo á köflum er þetta líka alvöru viðtal og fólk ekkert að bulla, þangað til að ég leiði viðmælandann í bullið.
Hvernig er að eiga við viðmælendur?
Það er auðvelt, enda allt topp fólk sem ég fékk til mín, fólk sem ég vissi að myndi gera þetta vel. En þetta er samt flókið, þættirnir eru allir ein taka. Við setjumst bara niður og byrjum að rúlla, ein taka og ein útkoma. Þetta er ótrúlega skemmtilegt, en auðvitað stressandi líka.
Hvað er svo framundan?
Það er bara Pipar / HEE-TV / lífið. Er með fullt af fleiri hugmyndum, nú fer ég bara að bögga ykkur með þeim.
Hér má njóta fyrsta þáttarins, njótið vel !