“Ekki til betri tilfinning en uppskera hlátur” – Guðmundur Snorri með aðalhlutverk í Snjór og Salóme

Guðmundur Snorri Sigurðarson stundar leiklistarnám í Kvikmyndaskóla Íslands en um næstu helgi verður frumsýnd kvikmyndin Snjór og Salóme þar sem hann leikur eitt af aðahlutverkum.

Ég leik Hans, sem er einn vinsælasti rappari Íslands. Hann er einstaklega vitlaus og barnalegur karakter – virðist drifinn áfram af löngun sinni til að sofa hjá öllu sem hreyfist. Svo er það þegar Salóme byrjar að vinna að heimildarmynd um hann að veröld hans hristist upp því hún hefur ekki minnsta áhuga á að sofa hjá honum – og það vekur upp margar óvelkomnar tilfinningar í honum.

Guðmundur Snorri hefur lengi gengið með kvikmyndanámið í maganum.

Ég hef stefnt að kvikmyndagerð síðan ég var 13 ára. 14 ára keypti ég mér vídjókameru og fór að taka upp eiginlega bara allt sem ég gat – gerði sketsa með vinum mínum og tók upp og klippti myndband fyrir árshátíðina í 10 bekk, sem var mjög skemmtilegt. Svo fór ég í Borgarholtsskóla en þar stefndi ég á handritagerð og leikstjórn, mér datt aldrei í hug að verða leikari.

Guðmundur segist hafa valið sér leiklistaráfanga  í Borgarholtsskóla af því hann taldi það vera einfaldar einingar.

En eftir nokkra áfanga, og þá sérstaklega eftir að vinur minn, Sigurður Anton, útskrifaðist og fór að gera allsskonar verkefni upp á eigin spýtur og fá mig til að leika í þeim þá fann ég mig algjörlega í leiklistinni og ákvað að slá til og sækja um í Kvikmyndaskólanum.

Væntingum Guðmundar Snorra til námsins í Kvikmyndaskólanum hefur verið fullnægt að nánast öllu leyti.

Kennararnir eru frábærir og það er eiginlega fáránlegt hvað það er skemmtilegt að eyða hverjum einasta degi í ekkert nema leiklist. Ég mun sakna þess mikið þegar ég útskrifast. Ég er orðinn hálfstressaður.

Og frumsýningarhelgina sem framundan er segir Guðmundur Snorri leggjast afskaplega vel í sig.

Það var ótrúlega gaman þegar Webcam var frumsýnd – að horfa yfir fullan bíósal af fólki, og sjá myndina í fyrsta sinn í gegnum þau, einhvernveginn. Það er ekki til betri tilfinning en að uppskera hlátur, finnst mér persónulega (því ég legg mikið upp úr gamanleik), þannig ef að ég er á skjánnum að reyna að vera fyndinn og fólk hlær, þá hlýnar mér um hjartarætur.
Ég útskrifast núna 20 maí, og eftir það tekur bara alvaran við. Það eru mörg járn í eldinum hvað varðar fleiri kvikmyndir og verkefni, en mig langar mikið að fara að vinna einhversstaðar við margmiðlun.

Guðmundur Snorri bætir við að hann hafi mikinn áhuga á að vinna við klippingar, textun og annað þess háttar.

Þannig að fá vinnu hjá einhverri sjónvarpsstöð við eitthvað svoleiðis væri bara draumur. En ég hef engar áhyggjur af því út af fyrir sig – lífið fer bara nákvæmlega eins og það fer og ég get ekkert gert nema upplifa það.