Erna Huld Arnardóttir til liðs við IFS News á Twitter
IFS News á Twitter hefur borist liðsauki en nýr blaðamaður miðilsins er Erna Huld Arnardóttir og hefur hún aðsetur sitt á Spáni.
Þó Erna Huld hafi aðeins lítillega komið nærri búninga- og leikmunavinnu við kvikmyndagerð hefur hún haft mikinn áhuga á kvikmyndaforminu um langt skeið.
Minn bakgrunnur liggur aðallega í bókabransanum og síðustu 8 árin hef ég einnig starfað í hótelbransanum. Breyting varð á högum mínum síðasta haust þegar einkasonurinn, orðinn fullvaxta og tilbúinn til að takast á við heiminn, flutti út og þá var komið að mömmunni að fara í ævintýraleit.
Erna fluttist til Spánar með kærastanum en hann starfar sem skipstjóri.
Hér er ég að njóta sólar, dútlast við að skrifa bók, smíða, læra á mótorhjól og auðvitað læra spænskuna. Það er að segja þegar hinn helmingurinn siglir um heimsins höf. Í hans fríum er planið að ferðast um Evrópu á mótorhjóli, einu saman til að byrja með, en verð orðin fullfær sjálf innan skamms er ég viss um og get þá hætt að vera hnakkskraut.
Eins og áður segir hefur Erna Huld eins og gefur að skilja óendanlegan áhuga á kvikmyndum af öllum stærðum og gerðum og skýrir það aðkomu hennar að IFS News nú.
Ég hallast ívið meira í áttina að ævintýrum og hryllingi. Ég tekst á við þetta nýja verkefni með það í huga að kvikmyndabransinn er ekki eingöngu bundinn við blessuð Bandaríkin, þó auðvitað séu þau stór. Ég vonast til að geta gefið alþjóðlegum markaði meiri sýnileika en verkefnið, sem ég tók við í síðustu viku, er afar áhugavert og er ég að sjálfsögðu að vonast til að geta gert því góð skil.
Kvikmyndaskóli Íslands óskar Ernu Huld velfarnaðar í starfi sínu við IFS News.