Fátt skemmtilegra og meira gefandi – Baldvin Kári er meðframleiðandi Rökkurs

Baldvin Kári er einn af framleiðendum hrollvekjunnar sem frumsýnd verður á Íslandi 27. október 2017 en hann er í hópi kennara Kvikmyndaskóla Íslands.

Ég kynntist kvikmyndagerð snemma í gegnum foreldra mína, en þau eru bæði kvikmyndagerðarfólk, framleiðandi og handritshöfundur. Ég var lengi vel óviss hvaða starf myndi henta mér best innan kvikmyndagerðarinnar, en var viss um að mig langaði til útlanda að læra, helst til Bandaríkjanna, enda uppalinn þar að hluta.

Baldvin Kári segist hafa vitað að til þess að komast í mastersnám þyrfti hann einhverskonar BA gráðu og segist nánast af handahófi hafa valið heimspeki og klassísk fræði við Háskóla Íslands.

Það endaði á að vera ágætt val því í heimspekinni kynntist ég fagurfræðinni og m.a.s. alls konar kenningum um fagurfræði kvikmyndaformsins og í klassísku fræðunum las ég forngrískar og rómverskar sögur og frásagnir. Samhliða þessu vann ég sem PA og svo 2nd AD á nokkrum íslenskum myndum og steig þar fyrstu skrefin á kvikmyndasetti.

Þar telur Baldvin Kári víst að hann hafi ánetjast kvikmyndagerð enda viti hann fátt skemmtilegra og meira gefandi en að vinna með með samheldnum hópi skapandi fólks að sameiginlegu markmiði.

Næst lá leiðin til New York, í framhaldsnám í kvikmyndagerð við Columbia University. Ég valdi Columbia aðallega vegna tvennra kosta: námið þar fókuserar nær einvörðungu á frásagnarkvikmyndir, og ég vissi að það var fókus sem ég vildi. Og hitt, að fyrsta árið var sameiginlegt öllum og maður þurfti ekki að velja sér sérsvið (handrit, leikstjórn eða framleiðslu) fyrr en á öðru ári. Ég endaði á að velja leikstjórn, en tók alla kjarnakúrsana í handritsgerð sömuleiðis, og jafnvel valkúrs í framleiðslu líka. En kúrsarnir eru bara hálft námið, mesta vinnan liggur í öllum verkefnunum sem maður tekur þátt í. Ég kom að framleiðslu ótalmargra stuttmynda á einn eða annan hátt, og nýttist þar vel reynsla mín af kvikmyndasettum heima á Íslandi.

Eftir útskrift fluttist Baldvin Kári heim til Íslands og byrjaði að kenna við Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2013.

Ég hef mest kennt Myndræna frásögn, sem er leikstjórnarkúrs, og svo inngangskúrs í handritagerð, Lög og reglur. En líka kúrs í ritun og þróun kvikmynda í fullri lengd, Leikin bíómynd. Ég vann jafnframt hjá Zik Zak kvikmyndum á þessum tíma, og fókuseraði snemma á þróun verkefna og handrita, og ýmist vann með handritshöfundum að þeirra verkefnum eða las og gaf punkta.

Aðkoma Baldvins Kára að myndinni Rökkur á sér langan aðdraganda enda hefur hann lengi þekkt handritshöfundinn og leikstjórann.

Við Erlingur Thoroddsen, sem er leikstjóri og handritshöfundur Rökkurs, höfum þekkst frá því við vorum unglingsstrákar að leika okkur að taka upp stuttmyndir á sumrin. Þannig að þegar hann bað mig að vera einn af framleiðendum myndarinnar samþykkti ég það auðvitað strax. Hann er bæði sérstaklega hæfileikaríkur leikstjóri og við vinnum afskaplega vel saman enda verið vinir í hartnær 20 ár. Sjálfur hef ég aldrei laðast sérstaklega að hrollvekjum, þótt Erlingur hafi vissulega opnað augu mín fyrir möguleikum þessarar tegundar kvikmynda í gegnum tíðina, en það sem laðaði mig að Rökkri var saga þessa pars, Gunnars og Einars, og hvernig myndin kryfur þeirra fyrrum ástarsamband. Það var eitthvað sem mér fannst ég ekki hafa séð áður, hvað þá milli tveggja karla.

Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með kynningu á kvikmyndinni Rökkur en Erlingur Thoroddsen sem er handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar er einnig í kennarahópi Kvikmyndaskóla Íslands.