Handritalisti með verkum nemenda KVÍ sendur til framleiðslufyrirtækja

Kvikmyndaskóli Íslands hefur gefið út handritalista með verkum nemenda vorannar 2016 og  hefur listinn verið sendur til framleiðslufyrirtækja til kynningar.

Fyrirtækin sem fengu listana eru Truenorth, Sagafilm, Reykjavík Films, Askja Films, Mystery Productions, ZikZak,  23Frames, Virgo Films, Pegasus og Poppoli.  Hrafnkell Stefánsson, deildarforseti Handrita/Leikstjórnar segir að ætlunin sé í framtíðinn að senda út slika lista tvisvar á ári hverju.

Skólinn er ávallt að leita leiða til að auðvelda nemendum að koma sér út í atvinnulífið – kvikmyndabransann – að loknu námi og er þetta liður í því.

Hrafnkell segist ekki vita til að aðrir skólar hafi sama hátt á en finnst ekki ólíklegt að þetta hafi verið reynt annarsstaðar.

Hugmyndin að þessu öllu kom frá handritalistum sem við sjáum í Hollywood, t.d. BlackList, HitList og fleiri.  Þetta er auðvitað í fyrsta sinn sem við sendum svona út, en nemendurnir á bakvið verkefnin eru frábært kvikmyndargerðarfólk og vonast ég því til að þetta auðveldi þeim leiðina út í bransann. Auðvitað yrði stórkostlegt, ef einhver af þessum handritum færu lengra vegna þessa lista. En þó að nemandinn fengi ekki nema fund með einu af þessum fyrirtækjum vegna listans, þá gæti það vel leitt af sér spennandi tækifæri fyrir þann nemanda

Hrafnkell segir að í Handrita/leikstjórnardeild sé það stór hluti af náminu, að skrifa handrit að kvikmynd í fullri lengd.

Við erum með mjög framleiðslu- og verkefnamiðað nám, viljum að nemendur vinni verkefnin sín af metnaði og þetta er mjög jákvæð hvatning fyrir þá sem stunda nám í deildinni. Að verkefnin sem þau vinna séu alvöru.