Hlín Jóhannesdóttir segir frá Bokeh sem frumsýnd verður um áramót
Hlín Jóhannesdóttir, deildarforseti leikstjórnar/framleiðslu hefur um nokkuð skeið unnið að framleiðslu myndarinnar Bokeh á vegum fyrirtækisins Vintage Pictures.
Birgitta Björnsdóttir hefur unnið með Hlín í verkefniinu en þær eru samframleiðendur með erlendum aðilum. Einnig unnu fyrrum nemendur Kvikmyndaskólans við tökur myndarinnar en þar má nefna Arnar Benjamín Kristjánsson sem sinnti starfi “location manager”.
Tökurnar á Bokeh fóru fram í júní árið 2014 og er fyrirhugað að frumsýna hana í lok þessa eða byrjun næsta árs. Myndin er fyrsta mynd leikstjóranna tveggja og með aðalhlutverk fara Maika Monroe og Matt O’Leary – sem bæði teljast líkleg til velgengni og hafa þegar gert ágætis hluti vestan hafs.
Leikstjórarnir sem Hlín talar um eru Geoffrey Orthwein og Andrew Sullivan en Hlín segir að hér sé á ferðinni vísindaskáldskapur sem segi frá ungu pari sem er í Íslandsferð .
Parið vaknar einn daginn við að þau virðast vera einu manneskjurnar á svæðinu, landinu, jafnvel heiminum. Myndin er um það hvernig þau takast á við lífið og óvissuna í umhverfi sem þau þekkja varla.
Hlín og Birgitta tóku átt í framleiðslu á bandarísku myndinni Land Ho hér á landi árið 2013 og fylgdi vinnan að Bokeh í kjölfarið á þeirri góðu vinnu.
Framleiðendur þeirrar myndar bentu á Vintage Pictures sem vænlega samstarfsaðila. Okkur bauðst þannig verkefnið Bokeh og stukkum til .
Samstarfið segir Hlín hafa verið mjög ánægjulegt og má segja að ein mikilvægasta ástæðan fyrir því hafi verið hve gott og heilsteypt tökuliðið var. Mikið af tökufólkinu segir hún ekki einungis hafa verið frá Íslandi heldur hafi flestir einmitt verið útskrifaðir nemar úr Kvikmyndaskóla Íslands.
Við hjá Vintage Pictures nýtum okkur mjög vel allar kvikmyndaskólatengingar og höfum haft vakandi auga með því hvaða nemendur eru duglegir og áfjáðir í reynslu. Einn af okkar helstu bandamönnum er einmitt Arnar Benjamín Kristjánsson sem útskrifaðist úr deild leikstjórnar og framleiðslu árið 2012 en hann rekur fyrirtækið Fenrir Films ásamt félögum sínum úr skólanum.
Búast má við frumsýningu Bokeh öðru hvoru megin við næstu áramót og munum við sannarlega fylgjast spennt með því.