Hverfandi leiðir – Frumsýning í kvöld

“Hverfandi leiðir” heitir nýtt leikrit sem nemendur á 3. önn í handritun og 2. Önn leiklistar hafa unnið með Árna Kristjánssyni og leikstjóranum Ágústu Skúladóttur, sem frumsýnt verður í Kópavogsleikhúsinu í kvöld.

Hvað gerist þegar 10 mjög ólíkar persónur eru lokaðar inni á hóteli úti á landi, í sóttkví, eftir að eiturgufa byrjar að leka úr verksmiðju í nágrenninu?  Það sem þið sjáið á sviðinu í kvöld er það eina mögulega sem gæti gerst í slíkum aðstæðum.

Svo segir um efni leikritsins í efniskrá kvöldsins en einnig er þar sköpunarferli sýningarinnar lýst á eftirfarandi hátt:

Í janúar 2017 leiðbeindi Árni Kristjánsson nemendum á 3. önn handritshöfuna og 2. önn í leiklist Kvikmyndaskóla Íslands á vikulöngu spuna- og leikritunarnámskeiði. Full innblæstri eftir þá stuttu viku skrifuðu handritshöfundar svo klukkustundar leikrit, hver sinn hluta, á örfáum dögum. Fjölmörgum vikum síðar hitti leikhópurinn svo leikstjórann Ágústu Skúladóttur sem af sinni alkunnu snilld sauð saman heila töfraveröld ásamt leikhópnum á 10 dögum. Við endurtökum, 10 dögum.

Sýningar verða í kvöld, föstudagskvöldið 12. maí  kl. 18 og 20.30 í Kópavogsleikhúsinu eins og áður segir en höfundar verksins voru Inga Óskarsdóttir Ísak Þór Ragnarsson, Kristján Gauti Emilsson og Ólafur Freyr Guðmundsson. Leikarar í sýningunni eru: Kristján Eldjárn Sveinsson, Sigríður Bára Steinþórsdóttir, Rannveig Elsa Magnúsdóttir, Arnar Hauksson, Vala Elfudóttir Steinsen, Sveinn Lárus Hjartarson, Guðsteinn Fannar Ellertsson, Þórhildur Kristín Lárentsínusardóttir og Kristbjörg Sigtryggsdóttir.