Lærði ekki aðeins leiklist heldur góðan grunn í kvikmyndagerð – Monika Ewa Orlowska leikur í Föngum

Fyrsti þáttur Fanga var frumsýndur á nýarsdag en þar mátti sjá í hlutverkinu Wiktoria leikkonuna Moniku Ewu Orlowska.

Monika Ewa útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2013 og við fengum hana til að segja lítillega frá þeim verkefnum sem hún hefur verið í frá útskrift.

Auk hlutverksins í Föngum hef ég leikið í nokkrum bíómyndum, þáttunum Ófærð og auglýsingum. En ég ef líka leikið lítillega á sviði því saman settum við, Vanessa Terrazas, Jóhanna Lind Þrastar, Guðrún Bjarna og Sigga Björk, upp Píkusögur í fyrra undir leikstjórn Gunnu Helgu Sváfnis.

Aðspurð segist Monika Ewa námið í Kvikmyndaskólanum hafa nýst sér mjög vel í þessum verkefnum og almennt í að vinna að kvikmyndagerð.

Ég lærði ekki bara leiklist heldur fékk ég góðan grunn í kvikmyndagerð. Ég lærði hvernig þetta allt virkar og hvernig ferlið er frá því að hugmynd fæðist og þar til áhorfendur fá að njóta uppskerunnar, og allt þar á milli.

Hún gerir einnig mikið úr hlutverki þess að mynda ný tengsl gegnum námið í skólanum.

Ef það er eitthvað sem ég get ráðlagt núverandi nemendum, svona fyrir utan það að vinna samviskusamlega, þá er það að vera opin og kynnast eins mörgum og hægt er því þetta er mögulega fólkið sem þið munuð vinna með í framtíðinni. Svo er aldrei að vita, kannski hitti þið bara ástina í lífinu ykkar í skólanum og eignist seinna draumabarnið með henni.

Bætir Monika hlæjandi við en sjálf varð það einmitt hennar reynsla í skólanum.

Ég er nýlega komin úr fæðingarorlofi þannig að næstkomandi ár er ennþá pínu óljóst, sem er samt smá spennandi. Ég er að vinna sjálfstætt að gerð heimildarmyndar. Myndin hefur fengið vinnutitilinn Breiðholtið og eins og nafnið gefur til kynna  um Breiðholtið, eða réttar sagt fólkið sem býr og starfar þar. Mjög áhugaverð vinna sem snertir marga mismunandi þætti. Þannig að ef þið þekkið einhvern áhugaverðan Breiðhylting megi þið alveg setja okkur í samband.

Og skilaboð Moniku til nemenda eða þeirra sem hyggja á nám í Kvikmyndaskóla Íslands eru skýr:

Þú færð nákvæmlega það út úr náminu sem þú leggur í það.

Wiktoria