Lífið hefur áhrif á skrifin – Kristín Margrét Kristmannsdóttir útskrifuð úr leiklist gefur út barnabók

Vegir kvikmyndaskólanema geta verið órannsakanlegir og þræðirnir geta legið víða að útskrift lokinni. Kristín Margrét Kristmannsdóttir, útskrifaðist úr leiklistarnámi Kvikmyndaskólans árið 2010.

Í byrjun árs 2015 landaði Kristín Margrét Kristmannsdóttir útgáfusamningi fyrir barnabók og þessa dagana eru hún önnum kafin við kynningu verksins sem kom út fyrir skemmstu undir nafninu Vikkala Sól. Bókin hefur gengið vel og prýddi m.a. nýlega annað sæti metsölulista barnabóka hjá Eymundsson.

Áhuginn fyrir því að skrifa hefur alltaf verið til staðar. Þetta er eitthvað sem ég þarf að gera, á meðan sumir finna þörf hjá sér t.d til að syngja af hjartans list eða mála, þá skrifa ég, af því ég þarf þess. Á erfitt með að fá fólk með mér í búðir, því ég enda yfirleitt ráfandi um bókabúðir eins og smákrakki í nammibúð og þá helst í barnabókadeildinni. Mér finnst heillandi að nýta ýmindunaraflið í skrif, heimur barnabókanna er eitthvað svo frjáls og án takmarkana.

Þetta er fyrsta bók Kristínar Margrétar og hún segir það sannkölluð forréttindi að fá tækifæri til að sjá drauma sína rætast og fylgja þeim eftir.

Ég geri mér fulla grein fyrir þessu og hef alveg þurft að klípa mig til að átta mig á því að þetta í rauninni að gerast! Að baki þessu stendur þó hörku vinna sem ég hef þurft að leggja allt mitt í.

Kristín Margrét nýtur þess að skapa og sinna listsköpun í fjölbreyttu formi og fæ útrás fyrir hana á ýmsa vegu. Leiklistarbakgrunnur nýtist henni á ýmsa vegu þó þessa stundina sé það sköpun við bókaskrif sem á hug hennar og hjarta.

Allar upplifanir hafa áhrif á skrifin, lífið hefur áhrif á skrifin. Leiklistarnámið hjálpar mér við þætti tengda starfinu, klárlega. Upplestrarnir sem fylgja þessu verða t.d áhrifameiri og skilmerkari og þar nýtist vel það sem ég hef lært.

Eftir útskrift segist Kristín Margrét hafa verið lánsöm varðandi verkefni. Hún fékk tækifæri til þess að spreita sig við flest störf innan kvikmyndageirans, bæði sem leikari, við framleiðslu, leikstjórn og við gervahönnun,

Ég lék í auglýsingum, stuttmyndum og á leiksviði. Leikverkið Völuspá sem sýnt var í Norræna húsinu stendur þar upp úr, en þar steig ég á svið ásamt fjölda hæfileikaríkra leikara og á meðal þeirra voru útskrifaðar leikkonur úr Kvikmyndaskóla Íslands. Undanfarið hef ég fengið tækifæri til þess að spreyta mig sem blaðamaður sem ég hef ansi gaman af. Á milli þess sem ég starfa sem yogakennari sem á hug minn og hjarta og hefur vissulega hjálpað mér að halda fókus þegar maður er með marga bolta á lofti.

Kristín Margrét segist njóta sín best í fjölbreyttu og skapandi starfsumhverfi og því leitast hún eftir að starfa við slík verkefni.

Ég reyni samt að spá ekkert of mikið í hvað verður. Heldur geri mitt besta í því sem ég tekst á við hverju sinni og sé svo hvert það leiðir mig. Það eru spennandi verkefni á vinnuborðinu sem bíða eftir að komast í farveg. En ég reyni eftir bestu getu að doka við og njóta þessa ævintýris sem ég er stödd í núna.

Kvikmyndaskóli Íslands óskar Kristínu Margréti til hamingju með bókina nýju og óskar henni alls góðs í framtíðarverkefnum sínum.