Litla stund hjá Hansa eftir Eyþór Jóvinsson keppir til Edduverðlauna á morgun

Stuttmynd Eyþórs Jóvinssonar sem útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands í desember síðastliðnum er meðal þeirra mynda sem á morgun keppa um Edduverðlaun sem stuttmynd ársins.

Það er fyrst og fremst bara gaman að fá tilnefninguna, það er ákveðið skref og viðurkenning frá bransanum. Hópurinn sem stendur að baki Litlu stund hjá Hansa er að mæta á sína fyrstu Eddu með tilnefningu, svo það er mikill spenningur hjá okkur nýliðunum.

Verðlauaafhending Eddunnar er á morgun en myndina Litla stund hjá Hansa gerði Eyþór meðan hann stundaði nám í Kvikmyndaskólanum.

Þó maður leyfi sér að vera bjartsýnn fyrir sjálfu kvöldinu, þá eru væntingarnar nokkuð hóflegar, enda hinar tvær myndirnar sem ég keppi á móti eru mjög sterkar og hafa sópað til sín verðlaunum.

Eyþór má sannarleg vera stoltur og raunar magnað að fylgjast með upphafi ferils þessa unga kvikmyndagerðarmanns.

Litla stund hjá Hansa er fyrsta myndin úr Kvikmyndaskólanum sem fær tilnefningu í þessum flokki og það er vonandi að þetta verði hvatning fyrir aðra nemendur að senda sín verk inn á komandi Eddur.