Næsta mynd í tilefni af 25 ára afmæli skólans, “Harður heimur”
Stuttmyndin “Harður Heimur”, var sameiginlegt útskriftarverkefni þeirra Þórðar Pálssonar úr Leikstjórnardeild og Egils Antonsonar úr Skapandi Tækni sem útskrifuðust á haustönn 2011.
Í samtali við Þórð Pálsson leikstjóra myndarinnar sagði hann okkur
Þau tvö ár sem ég stundaði nám við Kvikmyndaskóla Íslands voru frábær. Það var þar sem ég náði fyrst að átta mig á því hvað ég vildi gera það sem eftir væri ævi minnar. Að skrifa og leikstýra kvikmyndum.
Ég lærði þar þau grundvallaratriði sem maður þarf til að framleiða leikið efni þ.e.a.s. að vinna með leikurum, þróa hugmyndir í handrit og tala með myndmáli en ekki bara orðum. Einstaklingar með sama brennandi áhuga á kvikmyndagerð geta því þroskast saman í skapandi umhverfi. Það voru ekki bara praktískir hlutir sem ég lærði í KVÍ, heldur eignaðist ég þar vini sem ég mun eiga til lífstíðar.
Á minni seinustu önn í skólanum komst ég að því að ég vildi læra meira og ég áttaði mig á því að lokamyndin mín gæti verið einskonar “calling card” fyrir mig. Þar af leiðandi lagði ég mjög mikið í útskriftarmyndina mína “Harður Heimur”, sem ég gerði með Agli Antonssyni frá Skapandi Tækni. Eftir útskrift frá KVÍ þá sótti ég um hjá The National Film and Television School á Englandi og fékk inngöngu. Ég útskrifaðist þaðan í sumar eftir tveggja ára nám og er kominn með MA í Directing Fiction, umboðsmann hjá virtri umboðsskrifstofu og fékk styrk frá Nordic Talents 2015 til að skrifa mína fyrstu kvikmynd í fullri lengd.
Ég hefði ekki náð hingað sem ég er í dag, ef ég hefði ekki stundað nám við Kvikmyndaskóla Íslands, það veit ég fyrir víst
Á næsta ári verða frumsýndir sjónvarpsþættirnir “The Valhalla Murders” á RÚV og er leikstjóri og höfundur þáttana okkar maður Þórður Pálsson
Egill Antonson úr Skapandi tækni sem vann myndina með Þórði segir í samtali við okkur
Kvikmyndaskóli Íslands kom mér í samband við gott fólk sem leiddi af sér mikla og skemmtilega vinnu sem ljósamaður, bæði á Íslandi sem og í Noregi og Danmörku. Ég hef unnið við það í 5 ár, þar til ég tók mér barneignarleyfi. Ég hef búið á Grænlandi síðasta hálfa árið að kynna mér land og þjóð
“Harður Heimur” hlaut viðurkenningu fyrir bestu mynd leikstjórnar og framleiðsludeildar KVÍ haustönn 2011.
Myndin er afskaplega vel gerð, það verður spennandi að fylgjast með þeim drengjum í framtíðinni og við vonum innilega að þið njótið áhorfs