Reynsluboltinn Rúnar Guðbrands segir frá nýjum leiðum leiklistardeildar

Rúnar Guðbrandsson var ráðinn deildarforseti leiklistardeildar Kvikmyndaskóla Íslands um síðustu áramót og var síðan fastráðinn í ráðningarferli deildarforseta nú í vor. Rúnar er leikari, leikstjóri og leikhúsfræðingur, menntaður í De Monfort University í Englandi, Cafe Teatrets Dramaskole í Kaupmannahöfn og víðar m.a. hjá Jerzy Grotowski í Póllandi og Eugenio Barba í Odin Teatret í Holsterbro. Hann er einn reynslumesti leiklistarkennari landsins. Hann var prófessor við leiklistardeild Listaháskóla Íslands og stóð að uppbyggingu deildarinnar þar. Það er gríðarlegur fengur fyrir KVÍ að fá hann til liðs við skólann.

Frá því Rúnar tók við hefur hann, ásamt góðu fólki, unnið að endurskoðun námskrár og skipulags leiklistardeildarinnar. Nú liggur niðurstaðan fyrir í nýrri námskrá skólans fyrir skólaárið 2016-17, sem komin er út og sjá má á heimasíðu. Við það tækifæri er rétt að taka Rúnar tali og fræðast um þessa vinnu.

Hverjar voru helstu forsendur og hver voru helstu markmiðin í þessari endurskoðunarvinnu?

Lengi má gott bæta. Námskrár þarf stöðugt að vera að uppfæra í takt við kröfur tímans. Nýir straumar og stefnur velkjast um veröldina og nýir kennarar koma fram með nýja og spennandi þekkingu. Þetta er m.a. viðleitni til að svara kalli tímans, en líka að skerpa á námskeiðslýsingunum, gera námskeiðin enn markvissari og bæta framvinduna og tengingu námskeiðanna, – reyna að gera námið enn skilvirkara. Einnig að skerpa á sérstöðu skólans sem kvikmyndaskóla með því að auka alla sérþjálfun leikara fyrir myndmiðla. Þannig ætti skólinn að verða fýsilegur valkostur fyrir þá sem vilja sérhæfa sig á því sviði.

Hverjar eru helstu breytingarnar í stuttu máli?

Fyrra árið, fyrstu tvær annirnar, snýst að miklu leyti um almenna leiktækni og sértæka þjálfun (líkami, rödd, leiklist.) sem sækir í brunn hefðarinnar og eru því nokkuð sviðslistamiðaðar. Þar er grunnurinn lagður fyrir seinna árið, seinni annirnar tvær, sem tekur nær alfarið mið af vinnu leikarans við myndmiðla. Nokkur ný námskeið líta dagsins ljós og önnur eldri víkja. Einnig verður töluverð endurnýjun á kennarliðinu og þó nokkrir nýir kennarar koma til starfa.Reynt hefur verið að gera uppbyggingu sérgreinanna markvissari og þeim fækkað. Þær eru nú þrjár; Leikur og hreyfing, Leikur og rödd og svo aðalgreinin sem heitir einfaldlega Leiklist og tekur jafnt á leiktækni, túlkun og sköpun í námskeiðum sem leiða hvert af öðru. Kjarninn í leiktækninni er sóttur til “Þriðja leikhússins”, þ.e.a.s  aðferðir Jerzy Grotowski´s og í rannsóknir Eugeino Barba m.a. þær er lúta að hinum síendurteknu lögmálum (the recurrent principles). Á seinni stigum eru nemendum svo, meðal annarra, kynntar aðferðir B. Brecht. Í leiktúlkun er nemendum upphaflega kynntar greiningaraðferðir Stanislavskis og þeim leiðbeint með aðferðum hans í vinnu með leikverk. Senuvinnan er svo þróuð áfram á annarri önn a´la M. Checkhov og loks fer áherslan eingöngu yfir á kvikmyndaleik á seinni tveimur önnunum og þá er innblástur sóttur annars vegar í amerísku “Methoduna” (Strassberg, Adler, Meisner) og hins vegar til Mike Leigh og fleiri.“Leikur og hreyfing” tekur töluverðum breytingum frá því sem verið hefur og verður nú boðið uppá  stutt en hnitmiðuð námskeið í ýmsu hagnýtu eins og t.d. bardaga- og slagsmálatækni, samkvæmisdönsum, fimleikum. Leikur og rödd verður áfram með svipuðu sniði og verið hefur, þó áherslubreytingar hafi átt sér stað. Enn sem fyrr er “Complete Vocal Technique” lögð til grundvallarsöngþjálfuninni en aðferðum Nadine George er m.a. beitt við þjálfun í textameðferð og töluðu máli.Stoðgreinarnar styðja svo við sérgreinarnar, en þar eru helstu nýjungarnar að nemendur fá að kynnast “Haraldinum”, spunatækni sem m.a. Impro Ísland beitir. Önnur ný stoðgreinanámskeið eru “Vinna með leikstjóra”,þar sem nemendur kynnast samskiptum leikara og leikstjóra og fá innsýn í vinnubrögð ólíkra leikstjóra og “Fagið og framtíðin” sem nemendur taka á síðustu önninni og fá þar m.a. þjálfun í undirbúningi og þátttöku í áheyrnarprufum (audition) og aðstoð við gerð kynningarmyndar (show-real) um sjálfa sig.

 

Hverja telur þú vera helstu styrkleika deildarinnar?

Námið er mjög framleiðsludrifið, öllum námskeiðum lýkur með einhvers konar “afurð”, sýningu, tónleikum eða kvikmynd. Það er þverfaglegt og nemendur leikistardeildar vinna mikið að ólíkum verkefnum með nemendum úr öðrum deildum. Með endurnýjaðri námskrá er enn frekar reynt að skerpa á sérstöðu deildarinnar sem leiklistardeildar í kvikmyndaskóla. Þó þetta sé leiklistardeild fá nemendur innsýn í alla þætti kvikmyndagerðar og tækifæri til að spreyta  sig á ýmsum sviðum hennar. Það má kannski segja sem svo að þetta sé grunnnám í kvikmyndagerð með leiklist sem aðalfag og þar liggur kannski styrkur deildarinnar, það er í allri þeirri kvikmyndagerð sem á sér stað innan deildarinnar.

 

Hver er framtíðarsýn þín fyrir deildina og hvernig sérðu hana þróast.

Það er margt að gerast, til dæmis er fyrsti angi alþjóðlegrar deildar að hefja starfsemi sína, 6 erlendir nemendur í leikstjórn/handrit  hefja nám í haust og ég vona að alþjóðleg leiklistardeild komist á koppinn sem allra fyrst. Það myndi ekki aðeins auka og efla nemendaflóruna, heldur líka auka möguleika okkar á að fá flotta kennara erlendis frá sem hefði þá væntanlega áhrif langt út fyrir veggi skólans. Einnig bind ég miklar  vonir við þær samræður sem verið hafa í gangi við Háskóla Íslands varðandi samstarf sem mundi þá styrkja nemendur okkar enn frekar og auka valkosti þeirra. Ég er einnig mjög áhugasamur um ýmis konar stuðning við útskrifaða nemendur og reyndar höfum við gert tilraunir með símenntun í huga. Útskrifuðum nemendum hefur verið boðið uppá þátttöku í þjálfun og vinnusmiðjum þeim að kostnaðarlausu. Það er eitthvað sem ég vil þróa áfram og taka lengra. Á síðunni casting.is er haldið utanum útskrifaða nemendur og þar geta þeir komið sér á framfæri.Í augnablikinu sé ég endalaus sóknarfæri fyrir deildina og hef í því sambandi fjölda hugmynda sem mér finnst óþarfi að tíunda hér því mér finnst betra að láta verkin tala.

 

 

 

 

 

 

Viðtal: Böðvar Bjarki Pétursson, stjórnarformaður Kvikmyndaskóla Íslands