Samvinna, samheldni, samstilling, – og úthald – Ávarp Jónu Finnsdóttur, deildarforseta Leikstjórn/framleiðslu

Við birtum ávarp Jónu Finnsdóttur úr lokahefti haustannara Kvikmyndaskólans en hún gegnir starfi deildarforseta Leikstjórnar/framleiðslu við skólann.

Samvinna, samheldni, samstilling, – og úthald. Það er kvikmyndagerð. Þar sem virðing fyrir viðfangsefninu og samlegð mismunandi starfa og sérhæfðra fagmanna er í fyrirrúmi. Þar sem allir sem að verkinu koma eru sögumenn og stuðla með sérþekkingu sinni að því að úr verði heildstætt kvikmyndaverk. Saga. Upplifun.Í Kvikmyndaskóla Íslands er lögð áhersla á reynslumiðað nám. Skólinn býður uppá “hands on” umhverfi þar sem nemendur fá innsýn í helstu starfssvið kvikmyndagerðar og áhersla er lögð á sérhæfingu, samhjálp og listrænt innsæi við gerð ólíkra kvikmyndaverka. Einnig eru kvikmynda- og listasögunni gerð góð skil.Í leikstjórnar- og framleiðsludeild er áhersla lögð á tvær helstu stoðir kvikmyndagerðar, leikstjórn og framleiðslu. Starf framleiðandans er fjölþætt; hann er oftast sá eini sem fylgir kvikmyndaverki frá upphafi til enda, frá hugmynd upp á tjald eða skjá og út í heim. Hann vinnur með handritshöfundi að þróun verksins og sögunnar, ber ábyrgð á fjármögnun undirbúningi og skipulagi, eftirvinnslu og dreifingu. Hann er driffjöður verksins og starf hans snýst ekki síst um að virkja með sér fólk til að breyta hugmyndum í veruleika.Leikstjórinn ber ábyrgð á efnistökum, áferð og stíl. Kvikmyndin endurspeglar listræna sýn leikstjórans og sem verkstjóri sér hann um að miðla þeirri sýn til samverkafólksins, þannig að allir gangi í takt og geti lagt sitt að mörkum, svo útkoman verði eins og að var stefnt. Samvinna leikstjóra og framleiðanda er afar mikilvæg og því sérstakur ávinningur fyrir nemendur deildarinnar að öðlast skilning á báðum þessum hlutverkum í námi sínu.Eitt helsta aðalsmerki leikstjórnar- og framleiðsludeildar er fjölbreytni, þar sem nemendur spreyta sig á ólíkum tegundum kvikmyndaverka, bæði sem framleiðendur og leikstjórar. Þeir reyna fyrir sér í gerð stuttmynda, heimildarmynda, auglýsinga, tónlistarmyndbanda og sjónvarpsþátta og njóta leiðsagnar helstu fagmanna landsins á sviði kvikmyndalistarinnar. Nemendur deildarinnar fá einnig kennslu í grundvallaratriðum handritsgerðar og dramatískrar uppbyggingar. Með því að leggja sig fram með opnum hug og góðri ástundun öðlast nemendur dýrmæta þekkingu og reynslu sem mun nýtast þeim á fjölbreyttum sviðum kvikmyndagerðar. Námið er í senn krefjandi og gefandi og opnar leið inn á starfsvettvang sem alls staðar er í örum vexti.Jóna Finnsdóttir
Deildarforseti Leikstjórnar- og framleiðsludeildar