Sér ekki eftir að taka áskorun Óla – Teitur Magnússon útskrifast úr KVÍ
Teitur Magnússon útskrifast nú í desember úr deildinni Handrit/leikstjórn úr Kvikmyndaskóla Íslands og gerði sér lítið fyrir og fékk verðlaun fyrir frammúrskarandi námsárangur og ástundun.
Hann segir ástæðu þess að hann sótti um á sínum tíma í skólanum hafa verið hvatningu frá starfsfélaga sínum Óla.
Ég var að vinna á lager hjá ÁTVR og það var akkurat ekkert að frétta í byrjun janúar. Þannig að ég var að búa til einhver myndbönd á glænýja Iphone-inn sem ég hafði fjárfest í stuttu fyrir jól. Óli sagði ,,Afhverju sækirðu ekki um í KVÍ?,, Ég tók því full bókstaflega og sótti um.
Og það varð úr og nú tveimur árum síðar er hann á þeim tímamótum sem útskriftin er.
Þetta er eiginlega búið að vera of fljótt að líða. En ánægjulegt.
Þegar Teitur er inntur eftir efni útskriftarmyndar sinnar svarar hann um hæl:
Í fangelsi afneitunar reynir ung stúlka að endurheimta það sem hún hefur misst.
Teitur segir þetta þó ekki vera eina umfjöllunarefnið sem hann brennur fyrir því hann er með verkefni á prjónunum eftir útskrift.
Ég er nú þegar byrjaður í hugmynda vinnu fyrir stuttmynd sem mig langar að gera á næsta ári. Ætli maður fari ekki að vinna eitthvað og reyna að safna sér einhverjum benjamins.
Myndin er tekin af Birtu Rán Björgvinsdóttur