Starfsmenn Fenrir Films eru að takast á við skemmtileg verkefni og þeirra á meðal eru fyrrverandi nemendur Kvikmyndaskólans
Við náðum tali af Arnari Benjamín Kristjánssyni framkvæmdastjóra og fengum að forvitnast um fyrirtæki þeirra sem átti sín fyrstu skref í Kvikmyndaskólanum. Þeir drengirnir hófu samstarf sitt árið 2011 og hafa vaxið hratt síðan
Flestir okkar byrjuðu að vinna saman á annari önn okkar í Kvikmyndaskólanum árið 2011, þá gerðum við stuttmyndina „Eitt Skot“. Þá vorum við bara fjórir af átta en svo þegar að kvikmyndaskólinn lenti í lokunum haustið 2011 mælti stjórnarformaður skólans þau orð að tækjaleigan stæði öllum opin á meðan skólinn væri lokaður og við tókum hann á orðinu og gerðum vefseríuna „Ævintýri á einkamál“. Þá bætust aðrir þrír við og hópurinn varð til. Seinna hætti einn af okkur og við bættist hann Hilmar Loftsson sem er ekki úr Kvikmyndaskólanum en hafði lært teiknimyndagerð og kvikmyndabrellur í Tækniskólanum. Við stofnuðum svo fyrirtækið okkar formlega árið 2013 og höfum síðan gert tvær myndir í fullri lengd og 12 stuttmyndir.
Með hugmyndaflugið að vopni sáu þeir opinn möguleika á kvikmynda markaðnum
Okkur langar bara til að segja sögur. Þegar við vorum í kvikmyndaskólanum var oft talað um hvað íslenskar kvikmyndir væru einhæfar og leiðinlegar og okkur langaði einfaldlega að breyta því. Mannkynið er þeim hæfileika gætt að geta sagt sögur og hvar værum við ef við hefðum þær ekki?
Hópurinn er fjölbreyttur með meiru og gerir það að verkum að þeir geta tekið að sér afskaplega fjölbreytt verkefni, og þá einnig á alþjóðlegum vettvangi
Við erum átta eigendur og stofnmeðlimir en svo eru þrír aðrir sem eiga ekki hlut en vinna með okkur í flestum verkefnum okkar.
Arnar Benjamín er framkvæmdastjóri og framleiðandi, hann sér um að fjármagna myndirnar okkar sem og að skipuleggja tökur og fleira, Guðni Líndal er leikstjóri og handritshöfundur. Hann er einnig yfir þróun (e. Head of Development), þ.e. að hann þróar flest verkefni sem við tökum að okkur og vinnur með utanaðkomandi leikstjórum við að laga handritin sín áður en við förum í tökur, Páll Ingi er handritshöfundur og er líka að þróa handrit (e. VP of development), Viggó Hansson er kvikmyndatökumaður og skýtur flest okkar verkefni, Stefán Örn er einnig kvikmyndatökumaður en er samt mest í að vera “focus puller” og fyrsti aðstoðartökumaður, Ari Rannveigarson er hljóðmaður, Eyjólfur Ásberg er aðstoðarleikstjórinn okkar og Hilmar Loftsson sér um grafíska hönnun hjá okkur. Þá eru einnig þrír aðrir með okkur en þeir eru Einar Pétursson sem er framleiðandi og er staðsettur í Bandaríkjunum, hann mun sjá um að reka skrifstofuna okkar þar sem við áformum að opna í október, Haraldur Thorlacius er með okkur sem framleiðandi og Simon Deeley er nýkominn til okkar sem handritslesari en hann er staðsettur í London og sér um að lesa handrit sem okkur berast á ensku
Þeim leiðist greinilega ekki og eru með fjölmörg verkefni í vinnslu
Við vorum að klára að skjóta tvær stuttmyndir í Edinborg í Skotlandi. “Donor” í leikstjórn Guðna Líndal sem skrifar einnig handritið og svo “A Skinny Girls Guide to Gaining Weight” sem er einnig eftir Guðna Líndal en er í leikstjórn Sölmundar Ísaks. Við áformum að þær verði tilbúnar í byrjun október og stefnan með þær er að senda á hátíðir um víða veröld.
Þá erum við með réttinn að bókinni „Þín eigin þjóðsaga“ eftir Ævar Þór Benediktsson og erum að vinna að því að breyta henni í sjónvarpsþætti sem Guðni Líndal skrifar ásamt Ævari.
Við erum einnig að vinna að þróun kvikmyndar sem heitir “Among Shadows” í samstarfi við sænska og finnska framleiðendur ásamt því að vinna að kvikmynd í fullri lengd eftir Guðna Líndal þannig að það er margt á prjónunum hjá okkur.
Heilmikil vinna hefur farið í að byggja upp fyrirtækið og er ekki hægt að segja annað en að framtíðin sé björt
Við höfum tekið okkur 5 ár í að byggja upp orðspor og nafn og öll sú vinna er að skila sér smátt og smátt. Við ætlum að opna skrifstofu í Los Angeles í haust en þá flytur Hilmar út og hann og Einar munu sjá um að reka skrifstofuna okkar þar.
Þá er draumurinn að geta unnið að okkar verkefnum því að við höfum allmörg draumaverkefni sem okkur langar að ráðast í.
Það verður spennandi að fylgjast með þeirra framleiðslu í Fenrir Films í framtíðinni og óskum við þeim góðs gengis