Stelpur skjóta – Uppskeruhátið samstarfsverkefnis Kvikmyndaskólans við WIFT og RIFF

Í ágúst síðastliðnum sóttu sextán stúlkur framhaldsskólaaldri námskeiðið Stelpur Skjóta en það var haldið á vegum WIFT í samstarfi við Kvikmyndaskóla Íslands og

Á tveimur vikum lærðu þær handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, leikstjórn og klipp en að því búnu unnu þær nokkrar stuttmyndir. Á laugardag kl.14 verður afraksturinn sýndur í Norræna húsinu, alls sex frábærar stuttmyndir eftir upprennandi kvikmyndagerðarkonur landsins.

Ása Helga Hjöleifsdóttir, leikstjóri og handritshöfundur varð fyrir svörum hjá okkur þegar við vildum vita hvort þau hjá WIFT teldu sig hafa náð tilætluðum árangri með námskeiðinu?

Já svo sannarlega! Stelpur segja oftar en ekki aðeins öðruvísi frá en strákar, og það var virkilega gaman að sjá þeirra raddir blómstra á námskeiðinu. Handritin eru gjarnan með fleiri kvenpersónum, og sjónarhornið – sjónarhorn ungra kvenna – er eitthvað sem við sjáum allt of lítið af í kvikmyndagerð dagsins í dag.

Ása Helga segir stúlkurnar sjálfar hafa haft á því orð að þær sæju eiginlega aldrei stuttmyndir eftir stelpur á sínum aldri.

Það var því alveg ótrúlega gaman að sjá hvernig þessar sex áhugaverðu myndir urðu til, og hvernig stelpurnar – sem margar hverjar voru að prófa að skrifa, leikstýra og klippa í fyrsta sinn – voru í lok námskeiðsins búnar að taka þvílíkt stökk áfram í því að tjá sig í gegnum þennan miðil. Annað sem var áhugavert var að í upphafi námskeiðsins sögðu margar að þær skorti félagsskap í þessu áhugamáli sínu; að þær þráðu að kynnast öðrum stelpum sem hafa áhuga á kvikmyndagerð.

Segir Ása að það hafi einmitt myndast sterk tengsl á milli stúlknanna sem tóku þátt í námskeiðinu og vonar hún að þær haldi áfram að gera myndir saman og finna stuðning hvor af annari.
Og má þá ekki fastlega búast við að WIFT haldi áfram með framtakið?

Jú, hiklaust. Stelpur Skjóta er komið til að vera. Strax í vetur munum við bjóða uppá annað námskeið. Þá verðum við reyndar eingöngu í handritaskrifum þar sem stelpur geta virkilega unnið vel og vandlega í handriti yfir dágóðan tíma og næsta sumar verður námskeiðið svo haldið aftur í svipaðri mynd og núna síðast, með töku, leikstjórn og klippi og öllum pakkanum.

Ása Helga vill hvetja fólk til að fylgjast með facebook síðu Stelpur skjóta, (www.facebook.com/stuttmyndanamskeid) þar sem námskeiðin verða auglýst.
Hún bætir við að skoðaðar hafi verið fleiri leiðir til að auka þátttöku stúlkna í kvikmyndagerð framtíðarinnar.

Þetta er náttúrulega mál málanna akkúrat núna, sem er frábært, og það eru margir í svipuðum pælingum. Stelpur Filma er til dæmis sambærilegt átak á vegum RIFF fyrir stelpur á grunnskólaaldri, svo og tónlistarmyndbandabúðir Stelpur Rokka. Eflaust er til margt fleira. Maður finnur allavega fyrir miklum meðbyr með þessari vinnu okkar.

Stelpur 1

stelp 3