Leiklistarnámið var krefjandi og gefandi

Við fjöllum á næstu dögum um nýútskrifaða leikara frá Kvikmyndaskóla Íslands, hvernig þeim líkaði námið og hvar þeim finnst þeir sjálfir standa að námið loknu.

 

Fyrst fáum við að vita hvað Láru Jóhönnu Magnúsdóttur fannst um leiklistarnámið í skólanum.

 

Mér fannst námið sjálft bæði krefjandi og gefandi. Ég lærði pottþétt meira en mig grunar. Það á eftir að “kicka” inn fljótlega, er bara ennþá að átta mig á því að þetta sé búið.Þetta var mjög fljótt að líða og ég er mjög ánægð að hafa nýtt tímann vel. Ég veit að ég græði mikið á því seinna meir, þetta er ennþá að meltast.Ég hafði mjög gaman af þessum tveimur árum og er rosa fegin að hafa kynnst svona æðislegu fólki, bæði kennurum og bekkjarfélögum.

 

Lára viðurkennir að spurningin um það hvað bíður sín í framtíðinni hræði sig en sú spurning hafi oft verið spurð síðustu daga.

 

Ég þekki sjálfa mig og ég veit að ég á ekki eftir að láta þetta nám fara til einskis. Finnst ég hafa með mér allan efnivið til að vinna úr núna, en ég þarf bara að finna eitthvað til að nýta hann í.

 

Ég stefni að því að reyna að skapa hluti sjálf bæði í skrifum og öðru. Mig langar bara til þess að geta verið listamaðurinn sem ég er og vinna út frá því.

 

Lára telur sig vera orðna góðan og skapandi listamann.

 

Ég hef áhuga á flestu sem tengist listunum og ég veit að maður getur allt sem maður hefur áhuga á. En ég er mjög metnaðarfull og hef mikla ástríðu fyrir því sem ég tek mér fyrir hendur og vil gera allt eins vel og ég get. Finnst það vera ágætur styrkleiki.Í lífinu hreyfir fólk mest við mér sem þorir að vera það sjálft og tekur manni eins og maður er. Finnst alltof lítið um það.