Kvikmyndaskólinn mikilvægur fyrir þá sem ætla í kvikmyndagerð – Marteinn Þórsson
Kvikmyndaleikstjórinn Marteinn Þórsson er i hópi öflugustu kvikmyndagerðarmanna Íslands og mikill fengur af samstarfi hans við Kvikmyndaskóla Íslands. Eftir hann liggur fjöldi verkefna af ýmsu tagi og þrjár kvikmyndir í fullri lengd en meðal verkefna sem framundan eru hjá Marteini er leikstjórn á kvikmynd sem gerð verður eftir bókinni Villisumar eftir.
Við fengum leikstjórann til að segja aðeins frá sjálfum sér og kennslustörfum sínum við Kvikmyndaskóla Íslands.
Ég held að það hafi verið Rut Hermannsdóttir sem bað mig um að kenna kúrs einhvern tímann á árunum 2008 eða 2009. Síðan þá hef ég kennt öðru hverju við skólann . Helsta áherslan hjá mér er nemendur læri með því að gera (learn by doing). Það er töluvert um að ég taki sýnimyndir og nota mikið kvikmyndina “The Five Obstructions” sem er einn besti kvikmyndaskóli sem völ er á.
Marteinn segist einnig notast mikið við heimildarþætti um Joseph Campbell sem heita “The Power of Myth”, en þeir samanstanda af viðtölum við hinn mikla sögumann. Hans nálgun í sögum allra landa er sögð vera grunnurinn að Star Wars myndunum.
Ég tel að allir kvikmyndagerðarmenn eigi að kunna að skrifa, taka, klippa og leikstýra – vinna sem flest störf á setti, sem runnerar, elda, vinna í propsi, hljóði og öllu bara. Sjálfur tók ég mikið af myndum frá 10 ára aldri og vann við kvikmyndagerð frá 18 ára aldri. Ég held ég hafi unnið við flest störf í þessum “bransa”. Ég fór í kvikmyndaskóla í Toronto, Kanada (Ryerson University) og kláraði þar kvikmyndagerðarnám með áherslu á leikstjórn. Síðan þá hef ég gert 3 kvikmyndir í fullri lengd, One Point O, Rokland og XL.
Marteinn segir að Kvikmyndaskóli Íslands hafi vaxið og dafnað síðustu árin og sé alltaf að verða betri.
Skólinn er mjög mikilvægur fyrir þá sem ætla sér að fara út í kvikmyndagerð, alls konar kvikmyndagerð. Ég tel það mjög mikilvægt að nemendur kynnist sem flestum greinum kvikmyndagerðar til að hjálpa þeim við að verða öflugir, sjálfstæðir kvikmyndagerðarmenn/-konur.
Verkefnin sem Marteinn vinnur að um þessar mundir eru mörg og hann segir starfinu fylgja endalaus barningur.
Nemendur þurfa að gera sér grein fyrir því. Það þarf að hafa eins mörg járn í eldinum og mögulegt er og ekki bara á Íslandi því, það er mjög lítill peningur í okkar eina kvikmyndasjóði og samkeppnin eykst með hverju árinu.
Verkefnið Villisumar er einmitt í samstarfi við franska framleiðslufyrirtækið Frozen Frogs.
Ég er með tvær bíómyndir í fjármögnunarferli. Það er UNA, sem er “genre” mynd, horror/thriller og VILLISUMAR, sem er drama sem gerist aðallega í Frakklandi sumarið 1955. Einnig er ég að taka í heimildarmynd um Jóhann Sigmarsson (THE STORY BEHIND HISTORY), en það er 4-5 ára ferli. Svo eru öll hin verkefnin, þ.m.t. sjónvarpssería byggð á skáldsögunni YOSOY og kvikmyndir byggðar á skáldsögunum ENGLARYK og GLÆPURINN: ÁSTARSAGA. Og fleira og fleira. Ég hef mikinn áhuga á “micro-budget” myndum og held að það sé framtíðin fyrir kvikmyndagerðarmenn á Íslandi. Við höfum ekki enn nýtt okkur þessa frábæru, stafrænu tækni sem gerir okkur kleift að vera mun sjálfstæðari en áður hefur þekkst.
Ljósmynd: Ómar Sverrisson