Að treysta á hugmyndir sínar og sjá þær verða að einhverju
Berglind Halla Elíasdóttir var í útskriftarhópi leiklistanema í vetur en við fengum hana til að segja okkur aðeins frá sinni sýn á námið í Kvikmyndaskóla Íslands.
Námið fannst mér krefjandi, gefandi og virkilega þroskandi. Ég komst að mörgu um sjálfa mig og margt fékk ég staðfest. Mér þótti ótrúlega gaman að komast loks í nám þar sem ég fann að “hér á ég heima”.
Það kom mér á óvart að fá að spreyta mig eins mikið og ég gerði í sjálfri kvikmyndagerðinni, þrátt fyrir að hafa lesið um það á síðu skólans, og ég kom sjálfri mér á óvart þar. Það að treysta á hugmyndir sýnar og sjá þær verða að einhverju er alveg ótrúlega fullnægjandi og þar að auki lærir maður svo mikið af því.
Þessi tvö ár í Kvikmyndaskólanum gáfu mér dýpri skilning og þekkingu á svo mörgum sviðum og þar að auki eignaðist ég alveg ótrúlega marga og góða vini.
Berglind tók inntökupróf í leiklistardeild LHÍ í vor og komst þar inn í frekara nám.
Ég var ein af þeim 10 sem fékk pláss við deildina í haust þannig það er bara spýta í lófana, fara yfir glósurnar og umsagnir kennara og læra meira. Ég hlakka mjög mikið til. Það væri svo ósköp ljúft að uppfylla draum 5 ára Berglindar og standa á Stóra sviði Þjóðleikhússins einn daginn.
Berglind kveðs vera afskaplega metnaðarfull.
Ég syng mikið og náði einmitt að styrkja mig allvel á því sviði þessi 2 ár í skólanum. Ég er opin og á auðvelt með að vera í samskiptum við fólk. Þar að auki teikna ég mikið og hef verið að selja myndir svona hingað og þangað. Ágætis aukapeningur það.
Og Berlind endar á því að segja að ekkert hjálp sér jafn mikið og tónlist.
En svo er svo erfitt að nefna bara eitthvað eitt. Ástin, listin og matur. Segjum það.