Útskrift vetur 2021 - Ágúst Þór Ámundason, Leiklist

Ágúst Þór mun útskrifast frá Leiklist þann 18.desember næstkomandi með mynd sína "Öllu er lokið"

Kobbi er fastur í húsnæði umkringdu uppvakningum. Hann er í talstöðvar sambandi við Dröfn dóttur sína og kærasta hennar, sem eru föst í húsnæði annarsstaðar í borginni sem einnig er umkringt uppvakningum. Hvað þarf Kobbi til bragðs að taka þegar hann verður óviss um afdrif dóttur sinnar? Verður hann að láta til skarar skríða gegn uppvakningunum til þess að bjarga dóttur sinni?

Ágúst Þór mun útskrifast frá Leiklist innan tíðar með mynd sína "Öllu er lokið", og fengum við að forvitnast eilítið um hann

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?

Maður auðvitað ólst á venjulegu sveitaheimili þar sem vissulega var horft á sjónvarpið á kvöldin. Ég man að snemma í æskunni var mikið verið að sýna vestra eða kúrekamyndir sem er svona fyrsta minning mín af kvikmyndum. Svo var ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Á mínum æskuslóðum, Laugum Reykjadal, var bíó og sjónvarpsleysið á fimmtudögum nýtt í bíósýningar. Maður var á barnsaldri farinn að stunda bíóið í sveitinni af kappi. Það þarf að taka það með í reikninginn að Ríkisútvarpið Sjónvarp var eina sjónvarpsstöðin á landinu til ársins 1986 og aðrar stöðvar ekki komnar í mína sveit fyrr en í kring um 1995 og þá er ég 15 ára. Videoleigurnar í nærliggjandi bæjarfélögum voru því vel nýttar og mikið um videókvöld heima hjá vinum og félögum á öðrum bæjum. Svona var nú kvikmynda lífið í sveitinni í gamla daga. 

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Að taka hugmyndina eða söguna sem maður hefur hnoðað saman og gera hana ljóslifandi. Það er heillandi að skapa atvik, samtöl, atburðarásir og fléttur í eina heild og setja hana á hvíta tjaldið.

Hvers vegna varð Leiklist fyrir valinu?

Hef einhvern vegin alltaf haft áhuga fyrir leiklist. Maður var snemma farinn að herma eftir fólkinu í sveitinni svo eftir var tekið á heimilinu. Einn æskufélaganna eignaðist VHS upptökutæki og fórum við að gera stuttmyndir og einhverja sketsa. Síðan blundaði þetta í mér þar til að ég 2012 fór að trana mér fram sem aukaleikari í þáttum, kvikmyndum og auglýsingum og síðan upp frá því að fara á leiklistarnámskeið hér og þar um bæinn. Endaði bara með því að ég dreif mig í að fara í full time leiklistarnám og sé ekki eftir því. 

Var eitthvað sem kom þér á óvart?

Í sjálfu sér kom lítið á óvart þar sem ég var búinn að stúdera og spyrja og kanna flest sem við kemur náminu. Vissulega voru flestir dagar eins og leiklistarnámskeiðin sem maður var á hjá viðurkenndum aðilum út í bæ, eins og daglöng námskeið. Vissulega hefur komið til ný kunnátta og hæfni til að takast á við stærri og kröfumeiri verkefni í faginu. Og vitaskuld er allt nám, hverju nafni sem það nefnist, þroskandi hverjum þeim sem það nemur.

Hvernig lítur svo framtíðin út?

Framtíðin er björt !