Áherslan á kvikmyndaleik – Rúnar Guðbrandsson, deildarstjóri leiklistardeildar

Rúnar Guðbrandsson er deildarstjóri leiklistardeildar Kvikmyndaskólans en hér er að finna ávarp hans úr lokahefti haustannar skólans.

 

Kvikmyndaskóli Íslands býður upp á tveggja ára nám fyrir leikara með sérstaka áherslu á kvikmyndaleik. Grunnurinn er lagður með kraftmikilli þjálfun í tækni leikarans, – sjálfu handverkinu; líkamsþjálfun sem eflir styrk, sveigjanleika og skerpir líkamsmeðvitund, – raddþjálfun, hjóðmótun og söng. Síðan færist áherslan yfir á leiktúlkun og sköpun.

Sérstaða námsins er þó sú áhersla sem lögð er á kvikmyndaleik.

 

Nemendur fá mikla og góða innsýn í heim kvikmyndagerðar, list hennar og tækni, enda hæg heimatökin í skólanum. Námið er verkefna og framleiðslutengt og nemendur hljóta víðtæka þjálfun í að leika í kvikmyndum og öðrum myndmiðlum í hópvinnu með öðrum deildum skólans. Auk þjálfunar í kvikmyndaleik kynnast nemendur handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, hljóðvinnslu, klipp og eftirvinnslu.

 

Nemendur fá tækifæri til að blómstra og dafna í skapandi og ögrandi umhverfi sem jafnframt veitir þeim öryggi, aukið sjálfstraust og sterkari sjálfsmynd á sviði listgreinarinnar.

List leikarans felst í því að gera hið ósýnilega sýnilegt, – að holdgera hugsanir og tilfinningar og gefa þeim sýnilegt form, – meitla þær í tíma og rými.  Að blása lífi í orð af blaði og gefa þeim hljóm. Að miðla skáldskap sem á einn eða annan hátt sýnir okkur líf og hlutskipti mannsins á jörðinni. Viðfangsefni leikarans eru mannleg tilvera í öllu sínu veldi:  innra og ytra líf manneskjunnar, samskipti við aðra menn og samfélag. Leikarinn leiðir okkur inn í hugsanir og tilfinningar manneskjunnar og birtir okkur hegðun hennar. Það er sérhæfð list leikarans sem skapar töfrana sem hrífa okkur, hvort heldur er á leiksviði eða í kvikmyndum.

 

Til þess að leikarinn geti tekist á við þessi flóknu viðfangsefni þarfnast hann þjálfunar, þar sem hæfileikar hans og persónuleiki eru í aðalhlutverki en líkami og rödd aðalverkfærin.

Til að tryggja að nemendur fái sem besta þjálfun sækir skólinn kennara úr röðum sérfræðinga á hverju sviði fyrir sig sem allir eru virkir í samfélagi listanna. Þeir koma úr röðum leikara, leikstjóra, söngvara, dansara, handritshöfunda og kvikmyndagerðarmanna. Saman vinna þeir að því að undirbúa nemendur til þátttöku í listgreininni að námi loknu eða fyrir framhaldsnám á einhverju sviði listgreinarinnar.

 

Leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands er því ákjósanlegur valkostur fyrir ungt og hæfileikaríkt fólk sem hefur áhuga á skapandi og krefjandi námi á sviði leiklistar og kvikmyndagerðar.

Leiklistardeildin er krefjandi tveggja ára nám og markmiðið er að nemendur fái að blómstra og dafna í skapandi og öruggu umhverfi.

 

Rúnar Guðbrandsson

Deildarforseti Leiklistardeildar

 

 

 

 

Rúnar Guðbrandsson