Andri Freyr Gilbertsson - Handrit og Leikstjórn

Andri Freyr mun útskrifast frá Handrit og Leikstjórn með mynd sína "Hugfangi"

Hugfangi

Sól er 19 ára boxari sem glímir við áráttu- og þráhyggjuröskun. Hún er að undirbúa sig fyrir mikilvægan bardaga en fjölskylduaðstæður og andleg barátta gerir undirbúninginn erfiðan.


Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?

Ég horfði á mikið af myndum þegar ég var barn en fyrsta minningin sem ég man skýrt eftir er þegar ég var 11 ára. Þetta var á aðfangadag og ég og mamma vorum að koma heim frá ömmu og afa og við horfðum saman á "Die Hard". Það var langt síðan mamma sá hana síðast og hún var eiginlega búin að gleyma hversu ógeðsleg myndin var, þannig að hún byrjaði alltaf að halda fyrir augun á mér í sumum atriðum, en mér fannst myndin geggjuð. 


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Ég elska eiginlega bara allt sem kemur að kvikmyndagerð. Frá því að maður fær hugmynd, framkvæmir og sér hana síðan í bíósalnum. Það sem heillar mig samt mest er að vera á setti með góðu fólki og að sjá alla vinna að sama markmiði. 


Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég var alveg á báðum áttum þegar ég var að sækja um hvort ég ætti að velja leikstjórn og handrit eða framleiðslu vegna þess að ég hef í raun áhuga á öllu sem kemur að kvikmyndagerð. Á endanum valdi ég handrit vegna þess að í framtíðinni þá vil ég leikstýra mínum eigin hugmyndum sem skipta mig máli. 


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Ég vissi í raun ekki alveg hverju ég ætti að búast við en það sem kom mér mest á óvart var hversu mikinn áhuga kennararnir sem voru að kenna okkur sýndu verkefnunum okkar. Margir kennarar voru með okkur seint um kvöld að fara yfir klipp og hugmyndir. 


Hvernig lítur svo framtíðin út?

Ég er mjög spenntur fyrir möguleikunum eftir útskrift. Ég ætla að sækja um á settum og byrja að vinna í mínum eigin verkefnum.