Anna Hafþórsdóttir með nýja þáttaröð í vinnslu
Anna Hafþórsdóttir, útskrifuð frá Leiklist, er að skrifa og leika í þáttaröðum sem verða á Sjónvarpi Símans

Anna Hafþórsdóttir útskrifaðist frá Leiklist í Kvikmyndaskólanum árið 2011
Ég kynntist leiklist fyrst á unglingastigi í grunnskóla og varð svo partur af leikfélaginu í Menntaskólanum á Akureyri þegar ég var nemandi þar. Ég tengdi strax eitthvað við þetta en sá ekkert endilega fyrir mér að læra leiklist eða starfa sem leikkona en þegar ég komst inn í Leiklistardeildina í Kvikmyndaskólanum ákvað ég að láta á þetta reyna. Ég hafði áhuga á leiklist, skrifum og kvikmyndagerð almennt svo þetta hentaði mér vel. Ég ákvað strax að taka þessu námi mjög alvarlega, enda var ég að flytja alla leið frá Akureyri, borga helling í skólagjöld og þurfti að taka tvo strætó-a til að koma mér í skólann á hverjum morgni, það þýddi ekkert að gera þetta með hálfum hug. Ég lenti í æðislega skemmtilegum bekk og eignaðist vini sem ég er ennþá í sambandi við í dag. Kvikmyndaskólaárin voru gríðarlega skemmtileg og skrýtin, ég hugsa til þessa ára með mikilli hlýju.
Anna hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni í gegnum tíðina
Ég hef tekið að mér nokkur hlutverk í svokölluðum "low budget indí" myndum, til dæmis Webcam, Snjór og Salóme, Auður og Þrot sem var allt mjög skemmtilegt og mikil reynsla. Svo hef ég fengið aukahlutverk í sjónvarpsþáttum eins og Aftureldingu, Vegferð og núna síðast var ég í nokkrum sketsum í Draumahöllinni.



Annað verkefni sem mér þykir alltaf vænt um eru örþættirnir Í ræktinni með Tinnu og Tótu en við Bylgja bekkjarsystir úr KVÍ og vinkona skrifuðum þá og lékum aðalhlutverkin.
Ég tók svo þátt í að skrifa og leik hlutverk í þáttum sem heita Vesen og verða á Sjónvarpi símans í haust og er svo að leika aðalhlutverk í minni eigin seríu þessa dagana, Í versta falli, en hún verður einnig sýnd á Sjónvarpi símans seint á þessu ári. Þættirnir eru gaman/drama með mystísku ívafi en þeir fjalla um Katrínu sem á erfitt með að horfast í augu við sín eigin vandamál og fer í staðin að njósna um yfirmanninn sinn sem hún heldur að sé að bralla eitthvað dularfullt í kjallaranum í vinnunni. Umfjöllunarefnin eru meðal annars brotin sjálfsmynd, alkóhólismi, flókin fjölskyldubönd, þráhyggja og vinátta sem hljómar kannski mjög dramatískt en nálgunin er í gegnum grín og stundum smá absúrdisma. Það er mikið fjör í tökum og ég hlakka til að sjá afraksturinn.