Anna Hafþórsdóttir einbeitir sér nú að kvikmyndagerð, skrifum og leiklist
Anna Hafþórsdóttir hefur komið að mörgum ólíkum verkefnum frá því hún útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2011.
Hjá Önnu er framundan frumsýning á nýrri mynd, og fengum við hana til að segja frá verkefnunum sem hún hefur fengist við og hvernig henni hefur nýst námið í Kvikmyndaskólanum.
Ég nýti mér þá tækni sem ég lærði í skólanum í öllu sem ég tek mér fyrir hendur á sviði leiklistar. Ég lærði alls konar hluti og tók með mér það sem nýttist mér og þróa það áfram. Maður fær að prófa margt í náminu og það er persónubundið hvað það er sem nýtist hverjum og einum. Svo er margt sem ég fattaði löngu seinna.
Anna segir að enn sé hún að uppgötva hluti úr náminu á nýjan leik.
Þess vegna hefur mér þótt gott að geyma námsefnið og glósurnar og kíkja á það öðru hvoru. Svo fékk ég að leika í slatta af stuttmyndum á meðan á skólagöngunni stóð og það er gott að sjá sjálfa sig og læra af því.
Önnu er eins og mörgum öðrum útskrifuðum nemendum skólans hugleikið hvernig það hefur reynst gott að leiklistarnámið í KVÍ einskorðast ekki við leiklistina heldur fá nemendur að læra handverkið í öðrum þáttum kvikmyndagerðar.
Ég hef sérstaklega nýtt mér það vel að hafa fengið að læra aðeins á cameru og að klippa. Þegar maður kemur út í kaldan raunveruleikann og enginn leikstjóri hringir þá verður maður að gera eitthvað sjálfur. Þá er gott að geta alla vega stillt fókus, ýtt á rec og klippt eitthvað saman. Þannig urði til dæmis Tinna og Tóta til. Svo var ég að leikstýra í fyrsta skiptið um daginn, þannig að það er mikilvægt að hafa fengið smjörþefinn af öðrum hliðum kvikmyndagerðar í náminu.
Anna fékk sitt fyrsta aðalhlutverk í kvikmynd haustið 2014, í Webcam.
Sama tökulið og gerði þá mynd ákvað svo að gera aðra ári seinna og ég fékk líka aðalhlutverkið í henni. Hún heitir Snjór og Salóme og kemur út í haust. Báðar þessar myndir eru gerðar fyrir mjög lítinn pening og flestir í tökuliðinu eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Sigurður Anton Friðþjófsson er ungur og upprennandi í sínu fagi og ég er ótrúlega glöð og þákklát að hafa fengið þessi stóru tækifæri. Ég og Bylgja (Babýlons) , sem var með mér í bekk í Kvikmyndaskólanum, bjuggum til fitness-dívurnar Tinnu og Tótu og fórum að gera sketsaþætti og settum á youtube.
Framleiðslufyrirtækið Stórveldið komst á snoðir um þætti Önnu og Bylgju og hrifust af vinnu þeirra.
Við gerðum átta þætti með þeim undir leikstjórn Kristófers Dignus og þeir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni Bravó. Við höfum síðan verið ráðnar til að gera sketsa fyrir brúðkaup og þess háttar. Fyrir utan þetta hef ég eitthvað verið að leika í þáttum og auglýsingum og fór með aukahlutverk í Vonarstræti.
Anna bætti við sig BS gráðu í tölvunarfræði að loknu náminu í Kvikmyndaskóla Íslands og hefur einnig starfað við það síðustu ár.
Ég hef verið að vinna sem forritari hjá yndislegu fyrirtæki sem heitir Nextcode. Ég hef reyndar komist að því núna að ég hef ekki tíma til að gera allt í heiminum og ákvað því að hætta þar og einbeita mér meira að kvikmyndagerð, skrifum og leiklist. Ég mun vinna út júní hjá Nextcode. Er líklegast að fara að leika í mynd í ágúst sem ég veit ekkert hvað ég má tala mikið um og svo var ég að komast inn í meistaranám í ritlist við HÍ. Þannig að það eru virkilega spennandi tímar framundan. Planið er sem sagt að fara að skrifa meira, bæði fyrir bíó og annað. Svo mun ég að sjálfsögðu halda áfram að reyna að koma mér á framfæri í leiklistinni.