Anna Sæunn leikstýrir mynd um sýrlenska flóttamenn á Íslandi
Anna Sæunn Ólafsdóttir útskrifaðist úr leiklistarbraut Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 af en hún leikstýrir þessa dagana heimildarþáttum um sýrlenska flóttamenn sem nýlega komu til Íslands. Einnig eru hún handritshöfundur ásamt framleiðanda þáttanna, Árna Gunnarssyni.
Ég geri ráð fyrir að þáverandi kerfi sé enn við lýði en þrátt fyrir að vera á leiklistarbraut var á hverri önn ákveðin áhersla á kvikmyndagerð þar sem við gerðum okkar eigin myndir og lærðum ákveðin grunnatriði kvikmyndagerðarinnar.
Anna Sæunn segir að þó hún hafi fengist lítillega við við kvikmyndagerð sem unglingur megi segja að áhuginn hafi kviknað fyrir alvöru í Kvikmyndaskólanum.
Þetta hófst alveg óvart! Það er eitthvað við þetta form og miðlun á sögu og andrúmslofti sem heillar mig alveg sjúklega mikið. Etir útskrift tók ég því rólega því ég eignaðist mitt fyrsta barn stuttu seinna. Í janúar 2014 byrjaði ég í námi í Þjóðfræði við Háskóla Íslands þar sem ég fékk ákveðna útrás fyrir rannsóknarþörfina í mér, en einhvernveginn blundaði alltaf miklu sterkar í mér að gera myndir um verkefnið sem við áttum að gera ritgerðir um.
Næsta vor var Önnu Sæunni boðin vinna við leiknu myndina sem var tekin upp í heimasveit hennar fyrir norðan, Bárðardal.
Það var skemmtileg og frábær reynsla, ekki síst vegna gríðarlegrar velgengni myndarinnar á heimsvísu. Eftir það var ekki aftur snúið en árið á eftir vann ég hjá Evu Sigurðardóttur í Askja Films þar sem ég gekk í gegnum ákveðna eldskírn í kvikmyndagerðinni, en Eva er ótrúlega fær og öflug kvikmyndagerðarkona sem ég hef lært mikið af.
Fyrir Askja Films framleiðslustýrði Anna Sæunn tveimur myndum. Regnbogapartý, sem var valin besta íslenska stuttmyndin á RIFF 2015 og heimildastuttmyndinni Heiti Potturinn eftir Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur.
Einnig vann ég að undirbúningi myndar í fullri lengd, Tryggðarpantur eftir Ásthildi Kjartansdóttur og er meðframleiðandi að stuttmynd í framleiðslu Askja Films sem fer í tökur á þessu ári, Frelsun, eftir Þóru Hilmarsdóttur og Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Fyrir það verkefni vann ég í pitch keppni í Cannes á síðasta ári. Í sumar tók ég að mér nokkur verkefni í casting fyrir Iceland Casting, en þ.á.m.var stór Icelandair auglýsing, Velkomin heim sem frumsýnd var á leik Íslands og Hollands í sumar.
Í haust ákvað Anna Sæunn að flytja norður til Akureyrar, nær heimahögunum, með það í huga að byggja upp enn sterkara kvikmyndaumhverfi á Norðurlandi og því ber vel í veiði koma sýrlensku flóttamennina til Akureyrar og þáttagerðin um þá.
Þættirnir hafa hlotið vinnuheitið “Amma” og verða í framleiðslu Árna Gunnarssonar hjá Skotta Film á Sauðárkróki. Einnig er ég að þróa heimildamynd um frjálsíþróttakonuna Hafdísi Sigurðardóttur ásamt Skotta Films og framleiða stuttmynd eftir fyrrum kvikmyndaskólanema, Jasmin Rexhepi, en við erum þegar komin vel á veg með fjármögnun á henna. Svo eru auðvitað milljón hugmyndir í þróun, en ég vinn að stofnun eigin kvikmyndaframleiðslufyrirtækis um þessar mundir og stunda einnig nám í söng við Tónlistarskóla Akureyrar og kenni leiklist í Leik- og Dansstúdíó Alice.
Ætlunin er að gera tvo 45-50 mínútna þætti til sýningar í sjónvarpi í fræðslutilgangi.
Síðan er planið að klippa heimildamynd með þéttara efni, 60-70 mínútur og meira narratíva sögu þar sem við tökum fyrir ákveðnar sögupersónur í hópi flóttamannanna og aðlögunarferlið hér. Aðalmarkmiðið er að endurspegla ferlið sem þau ganga í gegnum með því að koma hingað, svo fjarri heimslóðunum, og hvernig þeim reiðir af í íslensku samfélagi.
Anna Sæunn segir að einnig verði móttökum samfélagsins gefinn gaumur og inn í frásögnina fléttað upplýsingum um ástandinu almennt í Líbanon, þaðan sem þau koma.
Eins og margir vita er ástandið hroðalegt og veruleikinn sem blasir við svo mörgum verri en við gætum ímyndað okkur. Til að mynda eru í Líbanon milli 4-500.000 börn flóttamanna á grunnskólaaldri. Fleiri börn en telja íbúafjölda Íslands fá ekki skólagöngu og eru tilneydd til að vinna jafnvel frá unga aldri.
Anna Sæunn segir að í þáttunum verði farið vel yfir ýmsar staðreyndir til skýringar á málefnum flóttafólksins en einnig er leitast við að skoða ferlið frá þeirra eigin sjónarhóli. Því er farin sú leið að sjá viðburðina með augum ömmu sem er í hópi flóttafólksins.
Konur og börn eru okkur sérstaklega hugleikin þegar kemur að flóttamannavandanum þar sem þau fá síður menntun og vinnu. Stúlkur eru sérstaklega í slíkum aðstæðum. Hins vegar tíðkast það í mörgum samfélögum í löndum á Arabíuskaga að elsta manneskjan í fjölskyldunni er sú æðsta, þá amman þegar afans nýtur ekki lengur við. Amman í hópnum hér á Akureyri er líka ákaflega litríkur og skemmtilegur karakter og börnin hennar 9 eru dreifð um mörg lönd, einni dóttur hefur hún ekki heyrt frá í þrjú ár.
Dóttirin er stödd í Raqqa í Sýrlandi en enn hafa aðal söguhetjur myndarinnar ekki verið fastsettar.
Ætlunin er að fylgjast með öllum fjölskyldunum, en ljóst er að ákveðnir karakterar munu fá meira vægi og mun það skýrast betur eftir því sem líður á og veran á Íslandi fer að móta líf þeirra. Við höfum einnig verið í góðu samstarfi við Rauða Krossinn og Akureyrarbæ þegar kemur að tökunum og að sjálfsögðu höfum við samþykki fjölskyldnanna fyrir tökunum.
En hvenær hófst ferlið að gerð þáttanna og myndarinnar og hvar er gert ráð fyrir að hægt verði að fylgjast með afrakstri vinnunnar?
Árni hafði samband við mig rétt fyrir jól þegar hann var að fara af stað með undirbúning á tökum en þá hafði hann fengið dálítið fjármagn til að gera honum kleift að fara út til Beirut í Líbanon og taka upp fjölskyldurnar þar og einnig hjálparstarf á svæðinu. Ég var ekki lengi að hugsa mig um að stökkva á verkefnið því málefnið er mér sérstaklega hugleikið og þegar kom til tals að taka upp aðstæður á svæðinu í Beirut og Líbanon stóð ekki á mér.
Svo vill til að mannréttindamál standa Önnu Sæunni nærri og hún segist strax hafa fundið fyrir sterkri löngun til að læra meira og fá að miðla boðskapnum.
Alveg eins og aðrir á Fróni á maður líka til að blindast af okkar eigin tilbúnu vandamálum og sjá ekki ljósið jafnvel þótt við stöndum á því, ég er jafnsek um það og margir á Vesturlöndum. Þá á ég sérstaklega við að bera saman okkar vandamál,jafnvel þeirra sem búa við verstu aðstæðurnar hér heima við þær aðstæður og vanda sem til dæmis sýrlenskir flóttamenn búa við. Það á að mínu mati ekki við nein rök að styðjast, sérstaklega eftir veruna og upplifanirnar úti í Líbanon.
Í janúar vörðu aðstandendur myndarinnar viku við tökur í Sýrlandi og náðu þar miklu af verðmætu efni sem mun vonir þeirra standa til að gefi góða mynd af ástandinu.
Veran úti gerði mér ennþá betur ljóst hvað við erum líka blind á þann auð sem við búum langflest við hér heima; að hafa húsaskjól og vera laus við pólitísk stríðsátök. En það er jú vissulega eitt af markmiðum myndarinnar, að sýna að hér hefur áður tekist vel að aðlaga flóttamenn íslensku samfélagi og það starf megi einnig taka til fyrirmyndar í öðrum löndum.
Tökur munu fara fram út árið en í árslok er vonast til að hægt verði að sýna afraksturinn.
Viðræður eru hafnar við RÚV þar sem samstarfsgrundvöllur er talinn fyrir hendi og okkar von er að þættirnir verði sýndir þar. Stefnan er svo að heimildamyndin sjálf fari á hátíðir á Íslandi og á heimsvísu á næsta ári.