Anton Smári Gunnarsson
Við náðum smá spjalli við Anton Smára, fyrrum nemanda skólans, í von okkar um að fylgjast með okkar stórkostlegu útskrifuðu nemendum.
Hvað gerði það að verkum að þú fórst í Kvikmyndaskólann?
Ég var að ljúka námi í MH og ætlaði mér að fara í stjórnmálafræði svo ég gæti orðið diplómati þar til góðvinur minn Erlendur Sveinsson bað mig um að koma með sér í viðtal við Kvikmyndaskóla Íslands sem “andlegur stuðningur”. Ég hafði ekki einu heyrt af skólanum á þeim tíma en endaði með að fara í viðtal sjálfur. Þá kviknaði sú ljósapera að ég gæti haft atvinnu út frá einhverju sem ég hef verið dáleiddur af frá því ég var nógu gamall til að sitja uppréttur fyrir framan túbuskjáinn. Þá var ekki aftur snúið.
Einhverjar skemmtilegar minningar frá námsárunum?
Óteljandi skemmtilegar minningar, flestar myndi ég ekki opinbera samt sem áður. Ein góð minning er þó frá fyrsta TÆK áfanganum á minni fyrstu önn. Hópurinn var rétt svo að byrja að kynnast hvor öðrum og við vorum öll í stúdíóinu í Lynghálsi þar sem Sindri (sem var þá yfir hljóðvinnslu) var að sýna okkur fram á að hægt vera að njóta kvikmyndar með góðu hljóði og slæmri kvikmyndatöku, en það væri ekki nærri eins auðvelt með slæmu hljóði og góðri kvikmyndatöku. Mér fannst þetta mjög rökrétt og opnaði augu mín fyrir mikilvægi hljóðs í kvikmyndum. Ég held að flestir í salnum hafi verið á sama máli nema ein kona sem rétti upp höndina. Þegar Sindri beindi athygli sinni að henni, svaraði túlkurinn hennar að hún væri ekki sammála þessari staðhæfingu. Hún var sem sagt heyrnalaus. Hvorki fyrr né síðar hef ég séð Sindra jafn kjaftstopp sem endaði með hlátursköllum frá öllum í salnum.
Hvaðan kom hugmyndin að útskriftarmyndinni þinni?
Útskriftarmyndin okkar Erlendar Sveinssonar, Kæri Kaleb, átti sér langan aðdraganda. Við eyddum mörgum góðum stundum í Víkurhvarfi að “brainstorma” hugmyndir. Við enduðum með að fjalla um strák á unglingsárunum og allt sem því fylgir. Gátum báðir tengt vel við það viðfangsefni og að mínu mati er það ein megin ástæðan fyrir velgengni myndarinnar. Erlendur settist við skrif á meðan ég gerði mitt besta til styðja hann í því ferli. Tökur stóðu yfir í 6 daga samtals, og við fengum heila 4 daga í eftirvinnslu til að klippa, hljóðvinna, litaleiðrétta og ganga frá myndinni. Mjög eftirminnilegar andvökunætur í Víkurhvarfi.
Einhverjar mikilvægar lexíur sem þú tekur með þér frá náminu?
Ég lærði heilmargt á mínum árum í KVÍ enda tileinkaði ég mér námið og nýtti aðstöðuna og fagfólkið af bestu getu. Ef það væri eitthvað eitt sem mér finnst sitja sterkast eftir þá væri það að læra mikilvægi samstarfs. Ég var mjög ánægður með mína samnemendur og vil meina það að þetta hafi verið tvö af mínum betri árum, og það er mest megnis þökk sé fólkinu sem ég vann með sleitulaust á þessu tímabili, bæði kennarum og nemendum.
Hvað tók við eftir námið?
Eftir að náminu lauk fór ég að vinna sem verktaki, fyrst sem aðstoðamaður í ljósadeild. Gerði svo lítið annað en að vinna næstu árin í mismunandi stöðum innan tæknideildanna. Lærði heilmikið af þeim viskubrunnum sem eru kvikmyndagerðamenn á Íslandi, sem að mínu mati eru í hæstu gæðaflokkum á heimsvísu. Einnig vann ég á KUKL tækjaleigu sem er mér ómetanleg reynsla. Svo fyrir 3 árum síðan elti ég betri helminginn út til Englands, fékk vinnu hjá ARRI Rental, hætti þar fyrir rúmu ári og hef verið að vinna sem tökumaður síðan.
Verkefni í vinnslu og framtíðarplön?
Það eru nokkur skemmtileg verkefni framundan, helst ber að nefna tónlistarmyndband sem ég mun skjóta í næsta mánuði sem mun innihalda meðal annars Rag‘n’Bone Man, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Einnig er mín fyrsta kvikmynd í fullri lengd í augnsýn. Íslensk hrollvekja sem verður skotin í byrjun næsta árs. Leikstýrð af Vilius Petrikas og framleidd af Hero Productions. Er mjög spenntur fyrir því verkefni.
Og svona til að klára þetta megið þið njóta myndbands af upptöku efni Antons Smára frá árinu 2017, það fer ekkert á milli mála að hér er hæfileika maður á ferð !