Arna Magnea Danks um hlutverk sitt í "Ljósvíkingum"
Arna Magnea leikur Björn/Birnu í nýútkominni mynd Snævars Sölvasonar og hefur hlotið mikið lof fyrir
Arna Magnea er kennari, bardagaleikstjóri, áhættuleikari og leikkona. Arna er með diplómu í kennarafræðum frá Listaháskólanum, BA í Leiklist frá University of East London og lærði sviðsbardagalist í British Academy of Dramatic Combat. Hún fékk þjálfun frá Nick Hall, vopnameistara og stjórnarformanni BADC. Hún var áhættuleikari í mörgum verkefnum, þar á meðal á móti Russel Crowe í Noah, Dead Snow 2 og Game of Thrones, en þar sá hún einnig um að kenna og útfæra bardaga. Hún hefur svo verið áhættu leikstjóri í Föngum, Vitjunum, Svörtu Söndum 1 og 2 og Húsó, ásamt því að leika líka í Svörtum Söndum og 2 og Húsó. Hún kennir sviðsbardaga listir hjá Kvikmyndaskólanum og fengum við að forvitnast um þetta nýjasta verk hennar.
Þú hefur kennt við Kvikmyndaskólann undanfarin ár, áttu einhverjar góðar minningar þaðan?
Í stuttu máli þá er hægt að segja að ég eigi ekkert nema góðar minningar úr KVÍ. Það hentar mér einstaklega vel að kenna fjölbreyttum hópum með allskonar bakgrunn og ég hef aldrei orðið vör við annað en mér sé alltaf vel tekið þar, bæði af nemendum og starfsfólki. Hvort sem það var áður en ég kom út eða eftir.
Hvernig líst þér á framtíðar kvikmyndagerðarfólk sem þú hefur kennt?
Mjög vel og mörg þeirra hafa verið í sambandi við mig eftir útskrift, bæði til að fá ráðleggingar með áhættuatriði og með bransann, en einnig bara til að spjalla. Ég óska þeim öllum það allra, allra besta, allann daginn, alla daga.
Geturðu sagt okkur frá hlutverkinu sem þú leikur í Ljósvíkingum?
Ég leik Björn/Birnu sem er trans kona. Hún er enn inn í skápnum þegar við kynnumst henni fyrst í myndinni og greinilega eitthvað sem liggur þungt á henni, enda faðir hennar dauðvona í byrjun myndarinnar, en svo kemur í ljós, þegar hún kemur út, að það var einnig veran í skápnum sem var að íþyngja henni.
Myndin er svo um hvernig samband Birnu og æskuvinar hennar og samstarfsaðila, Hjalta, þróast og þroskast eftir að Birna kemur út.
Birna er sannleikurinn en Björn var dulbúningurinn sem hjálpaði henni að lifa af, þangað til að hann gerði það ekki lengur og raun orðinn svo íþyngjandi að hann var að drepa hana.
Hún er ljúf, viðkvæm, elskar að elda og hefur lokað sig frekar mikið af frá heiminum til að vernda sjálfa sig og sinn sannleika, þangað til að hún kemur út og finnur styrkinn og léttinn í frelsinu við að vera ekki lengur að þykjast. Hún hefur í raun notið skjóls af foreldrum sínum og vini sínum Hjalta, eins og hún segir sjálf í myndinni: "Hjalti! Án þín hefði aldrei verið nein Birna!" - Hér í raun er hún að segja að hún hefði aldrei lifað af án Hjalta og hans vináttu.
Hvernig nálgaðist þú hlutverkið?
Sem trans kona sjálf, þá hafði ég skýra tengingu við hlutverkið, en margt var þó ólíkt á milli okkar, eins og að Birna var á sjó og vann sem kokkur, en ég hef aldrei unnið á sjó, þó ég hafi nú eldað á veitingarhúsi í Svíþjóð um og eftir áramótin 1995 - 1996 og finnst alveg stundum gaman að elda sjálf. Þannig ég fékk að vinna aðeins á Tjöruhúsinu (Rauða Húsið í myndinni) til að undirbúa mig þar. Svo fór ég í tíma hjá Kára Halldór leikstjóra/kennara til að vinna með textan, blæbrigði og fleira. Svo fór ég til Þóreyjar Sigþórsdóttur í raddþjálfun, því ég þurfti að geta skipt á milli raddar Björns og Birnu eftir þörf og væntingum.
Hvað varð til þess að þú tókst að þér þetta hlutverk?
Eftir að hafa verið ráðgjafi á handritinu, því Snævar Sölvi vildi að allt sem viðkom trans væri samkvæmt lifuðum sannleika, þá gat ég ekki annað en beðið um að fá tækifæri til að leika Birnu, enda eina trans konan á Íslandi sem er lærð leikkona. Ég þurfti samt að sannfæra framleiðendurna og annað fólk um að ég gæti tekið að mér burðarhlutverk í kvikmynd og fór því í þó nokkrar prufur áður en ég landaði hlutverkinu.
Hvernig gengu upptökur fyrir sig?
Það var yndislegt að búa á Ísafirði og fólkið þar algjörlega dásamlegt. Margar tökurnar voru mjög krefjandi þar sem ég var oft úti við og það var einstaklega kalt þennan tíma og rokið gerði okkur nokkrum sinnum erfitt fyrir. Það var líka ákveðin hugsun og hönnun í bæði útliti Björns og svo Birnu sem gerði ekki alveg ráð fyrir þessum kulda, svo ég var oft að berjast við að leika eins og mér væri ekki kalt þegar ég var að farast og svo stöðugt að taka einhver kvefmeðul því ég var alveg korter í að verða fárveik síðustu vikurnar í tökum. Mín stoð og stytta voru oftast meðleikararnir mínir, því við vorum að ganga í gegnum svipaða hluti. Sérstaklega reyndist Björn Jörundur mér vel og er ég endalaust þakklát honum. Auðvitað var hægt að hlæja að ýmsu, sérstaklega eftir á ! Eins og þegar rokið var svo mikið að ljós brotnuðu og ég og Björn Jörundur þurftum að leika, ofan á allt hitt, að það væri ekki rok og að okkur væri ekkert kalt.
Hver var upplifunin við að klára tökur?
Vegna þess að ég hafði verið að berjast við kuldann og komin með hita, kvef og hrædd um að missa röddina síðustu tvær vikurnar, þá varð það léttir að ná að hafa skilað sínu með sóma. En svo nokkrum dögum síðar, þegar mér var loksins orðið hlýtt aftur og á uppleið eftir veikindin, þá auðvitað kom ákveðin söknuður eftir Ísafirði og ævintýrinu öllu saman.
Hver var tilfinningin við að horfa á myndina á stóra skjánum?
Það var erfitt í fyrsta skipti i Reykjavík, því svo margt sem fór í gegnum hugann (var að sjá hana í fyrsta skipti), eins og hvað og hvað ekki lifði af klippingar ferlið. Svo sá ég hana aftur á Ísafirði og þá náði ég að njóta hennar betur og bara nokkuð sátt, þó auðvitað er alltaf eitthvað sem maður hefði viljað gera aðeins betur, eða eitthvað aðeins öðruvísi... svona eftir á ! En mér finnst í raun alltaf erfitt að sjá mig sjálfa, hvort sem heldur er á skjá, á mynd eða í spegli. Það er hluti af baráttu trans konunnar, því ég er aldrei eins í mynd og ég er í raun og veru innra með mér, þó ég færist, sem betur fer, alltaf örlítið nær því með árunum.
Og auðvitað að lokum, hvernig lítur framtíðin út?
Hún er frekar óræð eins og er, fyrir utan kennsluna. En ég kenni íslensku sem annað mál fyrir börn innflytjendana við Mýrarhúsarskóla á Seltjarnarnesi og hef gert undanfarin 6 ár sem mitt aðalstarf.
Vonandi á ég eftir að fá fleiri bitastæð hlutverk út á Ljósvíkinga, en það er því nú bara einu sinni þannig í bransanum að miðaldra konur, hvað þá miðaldra trans kona, eru oftast ekki að fá mörg tilboð.