Axlar-Björn, eini fjöldamorðingi Íslands, gengur aftur

Hafsteinn Hafsteinsson, útskrifaður frá Leiklist hjá Kvikmyndaskólanum, hefur nýverið lokið við að leika í nýrri mynd í fullri lengd um Axlar-Björn, sem talinn er vera eini fjöldamorðingi Íslands. Við fengum Hafstein í smá spjall

 

Hafsteinn Hafsteinsson

 

Við byrjuðum á því að forvitnast um hvaða kvikmynd Hafsteinn hafi heillast af fyrst

Það var “Grease”. Ég kunni lögin utanbókar og þykjustunni rólaði mér í stofustólnum heima á meðan ég söng lagið “Sandy” aftur og aftur. Féll náttúrulega killiflatur fyrir Oliviu. Systir mín átti plötuna og ég hafði ekki alltaf aðgang að henni. Ég bað því foreldra mína, sem voru á leiðinni til Spánar, að kaupa spóluna. Þau gerðu það. Svo setti ég spóluna í kassettutækið glaður í bragði og ýtti á play. Þá kom í ljós að tónlistin var döbbuð, spænskir söngvarar sungu yfir öll lögin.

Nám við leik var alltaf í spilunum hjá Hafsteini

Ég elska kvikmyndir og hef alltaf haft áhuga á leiklist og dansi. Ég dansa mikið og hef t.d. sýnt Bollywood dans undir stjórn Yesmine Olsson í Hörpunni og fleiri stöðum, og svo lærði ég sem barn samkvæmisdansa og er mikill Lindy hoppari. Mig langar mest af öllu að leika í dans- og söngmynd. Ég byrjaði á því að leika í auglýsingum um tvítugt og í ljós kom í tökum að oftast voru litlar athugasemdir gerðar við minn leik svo ég fór fljótlega að trúa því að ég gæti gert góða hluti sem leikari. Svo fór ég að leika í stuttmyndum og fékk þokkalega dóma fyrir mína frammistöðu. Að lokum ákvað ég að láta það eftir mér að læra leiklist þrátt fyrir að ég væri ágætlega farsæll í minni vinnu sem sáttamiðlari og sálfræðiráðgjafi.Það var áskorun að fara nánast hvern einasta dag út fyrir þægindarammann en þetta var frábært nám, erfitt en skemmtilegt. Það var mjög mikilvægt fyrir mig að fá að þroska og þróa mína hæfileika í vernduðu umhverfi.

Axlar-Björn

Og hvað tók við eftir námið?

Því miður tók ekki mikið við eftir námið, auglýsingar og leikur í stuttmyndum og nokkur lítilsháttar hlutverk í myndum í fullri lengd. Ég ákvað því að ég yrði að taka hlutina í mínar eigin hendur því enginn annar lætur víst manns eigin drauma rætast. Ég hef því verið með í þróun og framleiðslu kvikmyndaverkefni þar sem ég leik aðalhlutverkið, leikstýri og skrifa. Þetta eru gamanþættir sem vonandi verða sýndir í sjónvarpinu eftir eitt til tvö ár en ég hef nú þegar fengið glimmrandi undirtektir frá þungavigtarmönnum í bransanum.

Axlar-Björn

Hafsteinn hefur nú tekist á við að leika einn alræmdasta íslending fyrr og síðar

Ég hef stundum leyft mér að vona að mér yrði kannski einhvern tíman boðið að leika drykkfelldan og þunglyndan miðaldra mann í Þingholtunum. En hafandi sagt að enginn láti minn draum rætast þá vil ég segja að loksins bauð mér hæfileikaríkur leikstjóri og handritshöfundur, Davíð Charles Friðbertsson,  að leika aðalhlutverk í mjög merkilegri kvikmynd, mynd sem meira segja mínir villtustu draumar þorðu ekki að dreyma að ég myndi leika í. Mitt fyrsta aðalhlutverk í kvikmynd í fullri lengd er hvorki meira né minna en períóda og því búningamynd sem gerist á 16 öld. Ég leik Axlarbjörn en hann er eftir því sem best er vitað fyrsti og eini fjöldamorðingi Íslandssögunnar. Um er að ræða morð- og ástarsögu með afar dimmum húmor. Myndin var tekinn upp af verulega færum kvikmyndatökumanni sem hefur skotið 14 myndir í fullri lengd. Öll umgjörðin var einstaklega fagmannleg og krúið stórkostlegt. Myndin er núna í eftirvinnslu og verður frumsýnd fljótlega eftir áramót.

Axlar-Björn

Við bíðum spennt og látum okkur ekki vanta á sýningar á nýju ári, enda miklir hæfileikar hér á ferð