Bolli Már Bjarnason, útskrifaður frá Leiklist
Bolli Már Bjarnason útskrifaðist frá Leiklist hjá Kvikmyndaskólanum og hefur verið að gera góða hluti síðan. Við náðum tali af honum og fengum hann til að rifja aðeins upp tíma sinn hjá skólanum og forvitnuðumst um hvað hann er að gera núna
Ég var einmitt um daginn að skoða mynd af mér frá fyrsta deginum mínum í Kvikmyndaskólanum. Þarna var ég að vinna með denim on denim og svarta húfu. Vissi lítið út í hvað ég var að fara, hélt bara að ég vildi verða leikari. Ég átta mig á því núna þegar ég hugsa til baka hversu fáranlega lélegur ég er að muna eftir hlutum úr fortíðinni, fæ bara ákveðna tilfinningu þegar ég minnist áranna í skólanum. En hún er hlý og góð sem hlýtur að segja margt og ég finn alltaf fyrir þakklæti þegar ég hugsa um þennan tíma og þetta skref sem ég tók. KVÍ er svona dæmi sem er rekið áfram af fallegum hugsjónum og þrjósku, elementum sem flytja fjöll og gefa strák eins og mér verkfæri til að vinna með í lífinu. Þetta fylgir mér enn og mun gera alla tíð.
Til að lýsa því sem ég geri í dag þá væri best að segja: „Hitt og þetta, aðallega þetta“.
Ég er að vinna á Pipar\TBWA sem er algjörlega frábær auglýsingastofa og þar bý ég til auglýsingar í slagtogi við fáránlega frábært fólk sem kemur úr öllum áttum. Námið nýtist mér einmitt mjög mikið hérna, ég bý til myndbönd, skrifa fullt af texta og tek mér svo auðvitað líka stöðu fyrir framan kameruna. Allt þetta eru vissulega hlutir sem skólinn þjálfaði mig í en mögulega er mikilvægasta staðreyndin sú að í KVÍ lærði maður að vinna í hóp sem hafði ekkert nema hugmynd í höndunum og þurfti svo að nýta eiginleika allra í hópnum til þess að búa til gott stöff. Það er nákvæmlega það sem ég geri líka hér. Hugmyndin þarf bara að vera nógu solid til að bera allt skrautið.
Svo koma af og til skemmtileg leikaraverkefni inn á borð til mín og ég stefni klárlega á að fjölga þeim. Ágústa Margrét kennari bauð mér einu sinni að hjálpa mér með showreel og auðvitað er gersamlega glórulaust að ég sé ekki búinn að keyra það í gang. Stendur tilboðið enn Ágústa? Svo luma ég á mjög skemmtilegu efni sem ég hef verið að vinna í með piltum úr Kvikmyndaskólanum. Það kemur að því að það fái að líta dagsins ljós.
Eins og þeir sem þekkja mig vita að ég er algjör fótboltagómur og að liðið mitt Þróttur Reykjavík á risastórt hólf í mínu hjarta. Þess vegna sit ég í stjórn knattspyrnudeildar Þróttar. Góður sigur í Laugardalnum (sem er hjarta Reykjavíkur) á góðum sumardegi bindur lífið saman. Og talandi um að binda saman lífið þá kynntist ég kærustunni minni í skólanum, henni Berglindi Höllu Elíasdóttur. Hún er í dag á lokaárinu í LHÍ (leikarabraut) ásamt því að vera með mér, sem er í rauninni full vinna. En án alls djóks þá er hún alveg fáranlega frábær og rugl góð leikkona.
Nóg að gera hjá Bolla og verður spennandi að fylgjast með
Eins og Eggert Þorleifsson sagði í hinni goðsagnakenndu mynd Dalalíf: „Líf og fjör.“