Brotin loforð, draumar og eftirsjá taka sinn toll
„Örvar er yfirmaður í fiskvinnslu, hann hefur það gott ásamt konu sinni sem er ólétt. Örvar á yngri bróðir sem er undir miklum verndarvæng móður þeirra, sérstaklega eftir að faðir þeirra lést á sjó."
„Lífið þeirra breytist mikið þegar Örvar ákveður að senda yngri bróðir sinn á sjóinn. Brotin loforð, draumar og eftirsjá taka sinn toll af Örvari eftir að hafa sent bróðir sinn á sjóinn,“ segir Sigurgeir Jónsson þegar hann er beðinn um að lýsa útskriftarverkefni sínu frá Kvikmyndaskólanum.
Hann segir að teymið bak við myndina hafi lent á allskonar veggjum í framleiðslunni vegna kórónaveirunnar, en samt hafi verið magnað hvað þau hafi náð að gera. „Ég er svo heppinn með minn hóp, þetta eru svo miklir snillingar að það hálfa væri hellingur,“ segir hann.
Og hvað tekur nú við að lokinni útskrift?
„Það er að sýna sig og sjá aðra. Maður verður að fara út og ná í tækifærin sjálfur, þau koma ekki til þín. Vera duglegur að rækta þau sambönd sem maður hefur búið til í kringum sig seinustu tvö ár í náminu, bæði í gegnum nemendur og kennara.“
Sigurgeir bætir því við að lokum, að sér hafi gengið mjög vel í skólanum. Hann sé mjög ánægður með kennsluna og hve kennarar hafi verið viljugir að hjálpa á hvern hátt sem var. Þótt COVID-19 hafi vitaskuld sett stórt strik í reikninginn hafi allir alltaf lent á báðum fótum.
Sigurgeir Jónsson er að útskrifast frá Leiklist með mynd sína "Dimmviðri"