Byrjun. Miðja. Endir. – Hrafnkell Stefánsson er deildarstjóri Handrita- og leikstjórnardeildar
Hrafnkell Stefánsson er deildarstjóri Handrita- og leikstjórnardeildar Kvikmyndaskóla Íslands og segir okkur frá náminu þar í ávarpi sínu í lokahefti haustannar skólans.
Þetta eru hugtök sem við könnumst öll við. Án þeirra er manneskjan ófær um að segja sögur. Það mætti segja að þessi þau eru hluti af okkar DNA. Því kemur ekki á óvart að þessi hugtök eru grunnur verkfærakistu hvers höfundar.
Hver og einn höfundur á sína eigin verkfærakistu. Hún er uppfull af tólum og tækjum, sem hann notar sér við að móta, þróa og þroska hugmyndir svo úr verði heildstætt verk.
Hugmyndir koma til okkar úr öllum áttum. Þær koma úr draumum, umhverfinu og persónulegri reynslu. Að fá hugmynd er auðvelt, en þegar kemur að því að vinna úr henni þá kemur vel útbúin verkfærakista sannarlega að notum.
Í Handrita – og Leikstjórnardeild Kvikmyndaskóla Íslands viljum við hjálpa nemendum að útbúa sína eigin persónulegu verkfærakistu.
Í byrjun hverrar annar kemur saman hópur af ólíku fólki úr ólíkum áttum. Sumir mæta með reynslu af kvikmyndargerð í kistunni sinni. Aðrir hafa aldrei spreytt sig í listum áður, en hafa lífsreynslu í sinni kistu. En öll eiga þau það sameiginlegt – að þau stukku út í djúpu laugina, hættu að bara horfa og ákváðu að byrja að skapa.
Þessi ákvörðun er byrjunin á þeirra sögu, og er þau hefja nám erum þau komin á miðju. Nú fara hlutirnir að gerast. Undir leiðsögn helsta fagfólks úr kvikmyndabransanum bæta nemendur við sig verkfærum í kistuna sína. Verkfærum eins, vinnuferlum leikstjóra og handritshöfunda, reynslu í því að skrifa og leikstýra sínum eigin kvikmyndaverkum. Þekkingu á helstu undirstöðuatriðum kvikmyndagerðar, þ.á.m. framleiðslu og myndrænni frásögn, fá auk þess skilning á tækni og tækjanotkun.
Tveimur árum síðar kemur loks að endinum.
Náminu við Handrita- og leikstjórnardeild er lokið, verkfærakistan er troðin af öllu sem höfundur þarf á að halda. Í kistunni má nú finna, aga til að sitja löngum við handritskrif, þekkingu til að leiða verkefni sem listrænn stjórnandi, reynslu í að hafa fylgt hugmynd eftir frá byrjun til enda sem leikstjóri og tengslanet sem mun nýtast um ókominn ár.
Með hverjum endi er nýtt upphaf. Ný byrjun.
Hver sem hún verður, hafa nemendur nú fulla verkfærakistu og eru tilbúnir að takast á við þær spennandi áskoranir sem bíða í ört vaxandi kvikmyndiðnaði hér á landi, hvort sem það er við gerð sinna eigin verkefna, störf innan veggja hina fjölmörgu framleiðslufyrirtækja landsins eða áframhaldandi nám á erlendri grund.
Hrafnkell Stefánsson
Deildarforseti Handrita- og leikstjórnardeildar