COVID vann með mér í lokaverkefninu
„Myndin mín er heimildarmynd sem fjallar um það þegar tryppi eru tekin úr haga og fylgst er með fyrstu skrefunum í tamningu. Við skyggnumst inn í hugarheim hrossaræktenda og hvaða væntingar þeir hafa til ungu hestanna. Á síðustu misserum hafa orðið miklar breytingar á tamningu hrossa og eru þær aðferðir sem notaðar eru í dag skoðaðar,“ segir Þurý Bára Birgisdóttir um útskriftarverkefnið sitt frá Kvikmyndaskólanum.
Hún segir hiklaust að í sínu tilfelli hafi COVID unnið með sér en ekki gegn. „Þar sem þetta er ferli sem að ég var að kvikmynda þá gaf heimsfaraldurinn mér aðeins rýmri tíma í tökur og eftirvinnslu. Á þann hátt vann þetta ástand frekar með mér en hitt,“ segir hún.
Nú tekur við að fóta sig í raunheimum. „Draumurinn er að vinna við heimildarmyndagerð, hvort sem er stuttar eða langar. Ég hef óendanlega gaman af samskiptum við fólk og nýt þess að taka viðtöl og búa til sögulínur úr frásögnum. Svo er það rjóminn að fá að myndskreyta og dýpka frásagnir fólks og skila þannig að sem flestir njóti.“
Þurý Bára segist hafa notið þess í botn að vera í skólanum og þetta hafi verið frábær tvö ár. „Ég er svo lánsöm að fá að kynnast alveg nýju fagi á mínum aldri og það hafa verið forréttindi að geta lært kvikmyndagerð. Það er ekki auðvelt að skipta um hest í miðri á, en mikið svakalega getur það verið gaman.“
Þurý Bára er að útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína "Úr haga í hendur"