“Dýrmæt reynsla að leika í “Webcam” og “Snjór og Salóme”” – Anna Hafþórs

Anna Hafþórsdóttir leikur eitt af aðalhlutverkum kvikmyndarinnar Snjór og Salóme sem frumsýnd verður um helgina. Anna  útskrifaðist úr leiklistardeild  Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2011 en meðal annars sem hún hefur gert frá útskrift er aðalhlutverkið í myndinni Webcam sem frumsýnd var sumarið 2015.

Myndin gerist á mjög erfiðum tíma í lífi Salóme. Bæði er persónulega líf hennar og atvinna á viðkvæmum stað og hlutirnir virðast ekki ætla að fara eins og hún hefði viljað.

Segir Anna um hlutverk sitt í Snjór og Salóme.

Hún upplifir sig oft á tíðum eina, það er að segja, hún á erfitt með að mynda tengingu við aðra og er umkringd undarlegum karakterum. Þannig að hún virðist stundum sú eina manneskjan með viti. Einning virðist fólk stundum eiga erfitt með að skilja hana og tilfinningar hennar, hún er mjög tilfinningarík og viðkvæm en reynir eftir bestu getu að sýna það ekki.

Það er mikið tækifæri að leika aðalhlutverk í kvikmynd fyrir unga leikkonu og forvitnilegt að vita hvað standi upp úr eftir vinnslu þessara tveggja kvikmynda.

Vinnan við Webcam skilaði mér fyrst og fremst reynslu sem er dýrmæt, það sama má segja um vinnuna við Snjór og Salóme. Ég reyni að gera ekki of miklar væntingar en það væri auðvitað mjög gaman ef þetta leiðir til þess að leikstjórar verði duglegri að fá mig í prufur.

Anna hefur nýtt tímann vel frá útskrift til að víkka sjóndeildarhringinn með námi samhliða störfum sínum í leiklistinni.

Sem stendur stunda ég nám í ritlist við Háskóla Íslands og hef ég verið að leika í stuttmyndum meðfram því. Svo tók ég grunn- og framhaldsnámskeið í talsetningu. Mér finnst talsetning ótrúlega skemmtileg og væri til í að fara eitthvað lengra með það.

Og hvað tekur við að frumsýningu lokinni?

Ég mun halda áfram í ritlistinni, svo er ég að fara að leika í mynd núna í júní eftir ungan og upprenandi leikstjóra sem lærði kvikmyndagerð í Prag.

anna haf 3