Ein besta ákvörðun lífsins að fara í KVÍ – Bjarki Kristjáns nýútskrifaður frá Falmouth University

Bjarki Kristjánsson útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands haustið 2012. Í nokkur ár starfaði hann hér á landi en þegar breski háskólinn Falmouth University samþykkti  hann beint inn á annað  ár í leiklistardeild sína  var teningnum kastað og Bjarki á leið til Bretlands í framhaldsnám.

Bjarki segir árin í Kvikmyndaskólanum hafa  verið einhver bestu ár lífs síns.

Það var klárlega ein besta skyndiákvörðun sem ég hef tekið að sækja um í skólann. Ég fékk ábendingu um að það væru auka inntökupróf fyrir leiklistardeild KVÍ eftir 2 daga og ég lét bara vaða. Skemmst er frá því að segja að ég komst inn í stórmerkilegan leiklistarbekk þar sem að við byrjuðum 10 en útskrifuðumst aðeins tvö, en við urðum fyrir mikilli ‘blóðtöku’ þegar skólaárinu seinkaði vegna deilna við menntamálaráðuneytið sem þó blessunarlega leystist.

 

Í dag eru allar deilur við ráðuneytið leystar og starf skólans skólans tryggt til framtíðar. Og erfiðleikarnir hafa þrátt fyrir allt ekki gert annað en styrkja nemendurna við skólann ef marka má árangur Bjarka.

 

Venjulega er leiklistarbekkur 10-12 manns svo ég og Saga Guðjónsdóttir sem útskrifaðist með mér vorum algjör tilraunadýr hvað þetta varðaði. Skólinn gerði gjörsamlega allt sem hann gat til að styðja okkur svo við myndum ekki verða af neinu sem venjulegur bekkur  fær en einnig svo við fengjum nú ekki  upp í kok hvort af  öðru. En ég verð að segja að þær áhyggjur voru algerlega gripnar úr lausu lofti . Ég hefði engan vegin getað óskað mér betri bekkjarsystur til að fara með mér í gegnum þetta allt saman en hana Sögu.

 

Bjarki segir að Kvikmyndaskólinn hafi algjörlega nostrað við þau og séð til þess að þau fengju  jafnlangar kennslustundir og aðrir þrátt fyrir að vera í hálfgerðri einkakennslu í ‘leik og rödd’, ‘leik og söng’ og leiklistarsögu.   Hóptímana fengu þau ýmist með önninni fyrir ofan eða neðan sig.

 

Í stuttu máli myndi ég segja að ég hafi aldrei áður upplifað eftirvæntingu við það eitt að komast aftur í skólann eftir helgi eða lengri frí fyrr en ég byrjaði í KVÍ. Svo góður var andinn innan veggja skólans og sambandið við alla starfsmenn frá Rektor, deildarforsetum, kennurum til Nikulásar lukkudýrs.Námið var ótrúlega persónulegt og í raun hannað eftir mínum þörfum sem er stórkostlegur kostur því það gaf mér möguleikann á að vaxa og dafna sem listamaður í stað þess að vera þvingaður í að gera hitt eða þetta sem ég hafði ekki áhuga á að gera á þeim tímapunkti.

 

Bjarki viðurkennir að hann hafi fyrst áttað sig á þessu fyllilega eftir að hann hóf nám sitt úti.

 

Þegar ég var kominn út til Bretlands í háskólanám í leiklist sá ég hversu góður þessi grunnur var sem ég hafði  aflað mér í Kvikmyndaskólanum. Ég var virkilega vel staddur hvað varðaði leiktækni, raddbeitingu og í raun á öllum sviðum og finnst mér það sanna vel gildi námsins sem ég fékk frá KVÍ

Eins og áður sagði hélt Bjarki ekki út til náms strax að loknu námi í Kvikmyndaskólanum.

Það var svo margt spennandi að gerast hérna heima beint eftir útskrift. Ég starfaði við þáttagerð hjá RÚV, var svo ráðinn sem kennari í Leiklist og stuttmyndagerð við Breiðholtsskóla og fékk allskonar hlutverk í stuttmyndum og auglýsingum.

Samþykkið frá háskólanum í Falmouth varð þó sá veruleiki sem beið Bjarka en meðan á því námi stóð fékk hann einnig tækifæri hér heima til að láta ljós sitt skína.

En einn partur af náminu í Falmouth  var þriggja mánaða starfsnám sem ég tók hjá Stúdíó Sýrlandi við talsetningar á teiknimyndum. Þar sem ég talaði inná Disney- þættina Phineas and Ferb, kvikmyndastiklur fyrir Angry Birds bíó myndina og Kung Fu Panda 3. Ég fór líka með hlutverk í bíómyndinni PAN og Alvin and the chipmunks: the road chip svo eitthvað sé nefnt. Auk þess að vera að talsetja var ég líka fenginn til að vera meðkennari á námskeiðum Sýrlands við talsetningar á teiknimyndum.

Og nú í vor útskrifaðist Bjarki með ‘BA (hons) Acting’ gráðu en útskriftarverkefni hans frá Falmouth  University var að fara með hlutverk í leikritinu Draumur á Jónsmessunótt eftir Shakespeare þar sem eg for með hlutverk Spóla. Leikritið var í leikstjórn Aiden Condron og var leikritið sýnt fyrir fullu húsi á AMATA Festivalinu við Falmouth

Mér þykir einnig mjög vænt um útskriftarmyndina mína úr KVÍ, Nocturne. Þetta var svona tilraun með að snúa við umhyggju áhorfendans í miðri mynd með því að réttlæta voðaverkin sem voru í gangi frá upphafi myndar. Hinsvegar féll ég svolítið í þá gryfju að vera meira að framleiða myndina mína en að einbeita mér alfarið af leiknum sem ég hefði frekar átt að gera. Ég  er til að mynda stoltari (leiklega séð) af frammistöðu minni í Þrír Vinir og Reiðhjól eftir Ellert Scheving og fleiri skemmtilegum hlutverkum sem ég hef tekið að mér.

Svo virðist samt sem verkefni og nám Bjarka hafi virkilega slegið í gegn hjá kennurum og prófdómurum í Falmouth University því þegar hann kláraði nám sitt nú í  lok maí 2016 hlaut hann meðaleinkunina 1st grade.

Bjarki segir að framundan hjá sér séu skemmtilegir tímar.

Ég er leiðsögumaður á Árbæjarsafni og tek smá törn þar í sumar áður en ég hendi mér aftur út í leiklistina. Ég er í viðræðum um að taka að mér frekari kennslu á talsetningu teiknimynda auk þess sem ég er að fara með hlutverk í stuttmynd eftir belgíska kvikmyndaframleiðindur sem fundu mig í gegnum heimasíðuna mína www.bjarkikristjansson.com .

Svo segir Bjarki planið vera að líta í kringum sig og virða fyrir sér þá möguleika sem standa til boða á næstunni.

 

En ef mér líst ekki nægilega vel á þau tækifæri þá bý ég einfaldlega til mín eigin verkefni því ég hef margar skemmtilegar hugmyndir um það hvað mig langar að gera.

13237856_10154340353454258_8959057743494211927_n