Elín Pálsdóttir

Elín Pálsdóttir útskrifast frá Handrit og Leikstjórn með mynd sína “Fyrir hönd keisarans”

"Þrír strákar á kynþroska aldri hjóla um landið í leit að steini sem inniheldur mikinn töframátt. Ferðalagið tekur á samband vinanna en von þeirra að steinninn gæti bjargað dauðvona vini þeirra er sterkari en allt."

Við fengum að forvitnast eilítið um ferðalag hennar Elínar í náminu

"Ég er að gera útskriftarmynd með Ingibjörgu Jenný Jóhannesdóttur. Við kynntumst í kvikmyndaskólanum en báðar komum við frá sama bæjarfélaginu. Á seinustu tveimur árum komumst við að því að við eigum báðar stórt atvik í lífi okkar sem að tengir okkur og ákveðum við að skrifa og leikstýra stuttmynd út frá þeirri upplifun, en báðar áttum við bræður sem að greinast með krabbamein á kynþroska aldri."

 

"Kvikmyndagerð hefur alltaf verið mikil óvissa fyrir mér. En því meira sem ég kynnist henni því meira verð ég ástfangin af hugmyndinni, að geta búið til eitthvað svo lítið eða stórt. Sem heild. Sem hluta af einhverju. Að skapa og hreyfa við fólki og hvað þá að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri. Ég valdi handritsdeild vegna þess að ég hafði alltaf mikinn áhuga á því að skrifa. Mig langaði að verða rithöfundur þegar ég var yngri. Mér þótti samt lestur alltaf frekar erfiður. Kvikmyndir hafa alltaf fangað athygli mína. Ég lagði saman tvo og tvo og þá byrjuðu tannhjólin í heilanum að snúast. Einhverstaðar þurfa kvikmyndir að verða til og þær oftast byrja með handriti. "

"Það kom mér á óvart hvað námið er fjölbreytt og skemmtilegt. Hver dagur er öðruvísi, það heldur manni á tánum sem hjálpar bæði með hugmyndaflæði og viljann til þess að skapa.  "

 

Skemmtilegar minningar frá náminu? 

"Þær eru svo margar. Ég verð að segja að þær löngu og erfiðu nætur sem ég hef eytt í skólanum með frábæru fólki."

 

Og að lokum, hver eru svo næstu skref, framtíðarplön? 

"Að halda áfram að skrifa og skapa í þessu frábæra listformi."