Eyþór Jóvinsson, handritshöfundur og leikstjóri, er með mörg spennandi verkefni á prjónunum
Eyþór Jóvinsson, útskrifaður frá Handrit og Leikstjórn hjá Kvikmyndaskólanum, hefur vakið mikla athygli að undanförnu. Hann leikstýrði stuttmyndinni „Skuggsjá“ eftir Magnús Ingvar Bjarnason og vann náið með honum að handritinu og hefur myndin þegar hlotið tvenn verðlaun á kvikmyndahátíðum. Við náðum tali af Eyþóri og hann sagði okkur frá fyrstu skrefunum sem drógu hann út í kvikmyndir og ferlinu síðan
Fyrst og fremst var það söguformið. – Ég hef aldrei verið mikill kvikmyndanördi, eins og svo margir, heldur hef ég fyrst og fremst gaman að góðum sögum, og sumar sögur henta í bækur, aðrar sem málverk, ljóð eða brandari í góðum vinahóp. En svo hentar kvikmyndaformið öðrum sögum best. Og þannig var það í mínu tilfelli. Ég heyrði af góðri sögu sem mig langað um leið að setja í myndrænt form og úr varð fyrsta stuttmyndin mín. Þar heillaðist ég af því hve margslungið kvikmyndaformið er og hve frjálsar hendur maður hefur með að koma sögunni til skila á margvíslegan hátt
Stuttmyndin sem Eyþór gerði fyrir útskrift var grunnurinn að stærra verkefni
Útskriftarverkefnið mitt var stuttmynd um hann „Arnbjörn“, sem er ættfræðingur á tíræðisaldri. Stuttmyndin var unnin út frá verkefni að mynd í fullri lengd sem ég er að vinna að um þessar mundir. Og ákvað ég því að nýta útskriftarmyndina sem „proof of concept“ fyrir þá kvikmynd.
Eyþór hefur haft nóg að gera frá útskrift í fjölbreyttum verkefnum og skipuleggur kvikmyndahátíð
Ég hef verið að vinna við hin og þessi verkefni eftir útskrift, jafnt mínum sem annara. – Frá því í vor hef ég verið að vinna í spennuþáttunum „Stella Blómkvist“ sem er nú nýlokið. Núna er ég að skrifa út mína fyrstu mynd, samhliða því að skipuleggja Gamanmyndahátíð Flateyrar sem verður haldin í byrjun september
Og það hægist ekkert um á næstunni
Næsta kvikmyndaverkefni sem ég hef tekið að mér er varðandi myndina „Lof mér að falla“, sem Baldvin Z leikstýrir og skrifar. Þá er ég einnig á fullu að vinna að minni fyrstu mynd í samstarfi við Grímar framleiðanda, en við áætlum tökur sumarið 2019. – Þess fyrir utan eru nokkur spennandi verkefni og tilboð á borðinu sem ég er að skoða
Og hvert er drauma verkefnið?
Þessa stundina er það „Arnbjörn“, en ætli það sé ekki alltaf þannig, að maður er að vinna að sínu draumaverkefni, svo þegar það er frá, þá verður bara til eitthvað nýtt draumaverkefni
Það verður spennandi að fylgjast með Eyþóri á næstu árum og óskum við honum góðs gengis