Fékk að kynnast ýmsum hliðum kvikmyndagerðar í Kvikmyndaskólanum

Inga María Eyjólfsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2011 en hún lauk nýlega framhaldsnámi í Danmörku og lék okkur hjá vef skólans forvitni á að vita meira um það sem hún hefur fengist við frá náminu hér heima.

 

Ég hef fengist mest við skapandi störf og sölustörf frá útskrift en ég fór í beinu framhaldi í frekara leiklistanám. Ég útskrifaðist nú í vor frá alþjóðlega leiklistar og sviðslistaskólanum CISPA í Kaupmannahöfn og mæli ég eindregið með því að þeir sem vilja halda áfram að rækta sig sem listamenn skoði þann skóla.

 

Inga María telur námið í Kvikmyndaskóla Íslands hafa komið sér vel fyrir það nám sem hún hóf síðar.

 

Það sem ég lærði í KVÍ hefur nýst mér vel og vil ég endilega ráðleggja öllum á leiklistabraut að taka sérstaklega vel eftir í “tækni” tímum og kynnast vel starfi þeirra sem eru á tæknideild því það margborgar sig seinna meir.

 

Þau ráð eru ekki gripin úr lausu lofti og samræmast því sem Inga María vill gjarnan fást við í framtíðinni.

 

Ég hef hug á að vinna frekar við leiklist og framleiðslu og nota þá tækni og færni sem ég hef lært til að takast á við verkefni af ýmsum toga. Ég fékk að kynnast ýmsum hliðum kvikmyndagerðar í KVÍ sem hefur verið mér gott veganesti og bý ég að því í dag. Áhugi minn á kvikmyndagerð jókst og eins lærði ég ýmislegt sem ég kunni ekki skil á áður en ég byrjaði í skólanum, fyrir það er ég þakklát.