Fylgst með öllum heimshornum og deilt á Twitter – Eysteinn Guðni segir frá IFS news

Kvikmyndaskóli Íslands opnaði nýlega nýja Twitter-síðu undir heitinu IFS – news. Síðunni er ætlað að vera fréttaveita þar sem komið verður við víða í veröldinni.

Eysteinn Guðni Guðnasson hefur verið fenginn til að ritstýra síðunni og við fengum hann til að segja okkur aðeins frá hugmyndinni bakvið þetta nýja framtak skólans.

Áhugi Kvikmyndaskólans liggur í því að fylgjast með því hvað er að gerast í hinum stóra heimi kvikmyndagerðar í dag. Þá er ég ekki bara að tala um Hollywood og Evrópu, heldur allan heiminn. Okkar markmið er að hafa puttann á púlsinum á því sem er að gerast víða í heiminum og deila því heitasta með þeim sem eru að fylgja okkur á Twitter.

Eysteinn Guðni segir að ekki sé aðeins ætlunin að birta fréttir úr starfi skólans heldur er síðunni ætlað að svara spurningum fólks um það sem er efst á baugi í kvikmyndaheiminum – til dæmis hvaða nýja stjarna er að skjóta upp kollinum í Kóreu eða hvaða mynd er að vinna verðlaun í Brasilíu?

Fylgst verður með öllum heimshornum. Auðvitað koma flestar fréttirnar frá Bandaríkjunum og Indlandi, þar sem flestar myndir eru framleiddar, en það koma líka reglulega fréttir frá minni löndum.

Eysteinn Guðni er 31 árs prestsonur úr Vestur-Húnavatnssýslu og útskrifaðist hann sjálfur úr Kvikmyndaskólanum árið 2005.

Er stoltur að hafa verið í fyrsta árganginum sem útskrifaðist úr tveggja ára námi. Síðan þá hef ég unnið við varðveislu á myndbandsefni hjá Gagnvirkni en síðar vann ég í eitt ár hjá Icelandic Cinema Online. Ásamt nýja starfi mínu hjá Kvikmyndaskólanum er ég líka umsjónamaður unglingahópa fyrir bahá’í samfélagið. Í frítímanum mínum hef ég lengi verið stjórnandi á Kvikmyndir.is og þá sérstaklega haldið utan um íslenskar kvikmyndir.

Þeir sem fylgst hafa með upphafsdögum IFS news hafa ugglaust tekið eftir að Eysteinn leitar fanga víða í efnisöfluninni.

Jú, þetta eru ansi margar síður sem maður er að fylgjast með. Svo les maður í gegnum fullt af fréttum og velur úr það sem er áhugaverðast. En maður gerir þetta af ástríðu og hefur bara gaman af.

Að liggja yfir fréttaefni um kvikmyndir hlýtur að vera einskonar draumastarf fyrir ungan kvikmyndaáhugamann og kvikmyndagerðarmann, eða hvað?

Draumastarfið liggur í því að gera það sem manni finnst skemmtilegt. Það ættu auðvitað allir að leggja sig fram við að gera áhugamálið sitt að atvinnu, hvort sem það er ástríða fyrir umhverfinu, að vinna með börnum eða tónlist. Það vill bara svo til að áhugamál mín eru meðal annars kvikmyndir og internetið. Það sem gerir þetta hinsvegar að draumastarfi er að fá að deila áhugaverðum fréttum með fólki. Mér finnst fátt skemmtilegra en þegar ég sé að fólk er að uppgvötva eitthvað nýtt af því að ég deildi því. Þessvegna vil ég endilega að sem flestir „fylgi“ Twitter síðunni svo að við getum náð til sem flestra.