Gengum stoltir frá þáttunum með þrjár Eddutilnefningar – Daníel Bjarnason um þættina Málið
Lesendur kannast ugglaust margir við þættina Málið sem sýndir voru á Skjá einum en í honum var tekist á við mörg samfélagsleg málefni og mein. Þættirnir nutu mikilla vinsælda en alls urðu raðirnar fjórar. Daníel Bjarnason, útskrifaður úr Handrit/framleiðsla er einn af lykilmönnunum á bakvið þættina ásamt Sölva Tryggvasyni en þær hafa nú allar verið gerðar aðgengilegar á Vimeo.
Daníel kom fyrst að gerð þáttanna, m.a. sem leikstjóri, eftir dagskrárstjóraskipti á Skjá einum en í raun má segja að þátturinn hafi sprottið úr eldri þáttagerð Sölva, þá undir heitinu Spjallið.
Nýr dagskrárstjóri á Skjá einum leitaði til mín og spurði hvort ég vildi ekki taka við þættinum. Ég sá mikla möguleika hvert fara mætti með þáttinn og hafði auk þess unnið mikið heimildarefni áður. Þar með hófst samstarf okkar Sölva, og gekk það mjög vel. Ég lagði alltaf mikla áherslu á lúkkið á þáttunum og að hann myndi ekki “feel-a” eins og allt annað sem maður sá í sjónvarpi af heimildarefni.
Daníel fannst heimildar- og fréttaskýringaefni vera ábótavant hér á landi en bætir við að þau í Málinu hafi notið góðs af því að fá ríkulegan tíma til að vinna efnið almennilega.
Til að byrja með fékk ég aðeins ákveðna upphæð til að covera laun fyrir sjálfan mig en með tímanum vældi ég út meiri pening. Ég gat rökstutt með ýmsum ástæðum að mig vantaði meira budget. Þarna voru til dæmis drónar fyrst að koma til sögunnar og vorum við með þeim fyrstu til að nýta okkur drónatökur í íslensku sjónvarpi.
Reynsla komst á áhorf Málsins og þátturinn vakti stöðugt meiri athygli. Þannig batnaði samningsstaða Daníels við það að þátturinn hans var ítrekað í hópi þeirra 10 dagskrárgerða sem mest var horft á.
En samt var ég alltaf kominn framúr sjálfum mér og vildi frekar leggja meiri pening í framleiðsluna heldur en að hækka launin og í 3ju seríu breytti ég format-inu og hóf að segja stakar sögur með leiknu efni. Batasaga var fyrsti þátturinn af þeirri gerð en hann sagði frá konu frá Vestmannaeyjum sem barðist við alkohólisma og son hennar sem eyddi barnæskunni í að vera tekinn ítrekað frá mömmu sinni. Svo tókum við sögu Jóa og Guggu sem hentaði líka vel fyrir leikið efni eins og fleira annað sem gerðum.
Þegar vinnslan hófst við gerð fjórðu seríu urðu aftur dagskrárstjóraskipti á Skjánum. Þó Daníel og honum hafi samist vel var hugur hins nýja yfirmanns annarsstaðar varðandi íslenskt efni og þar með lauk framleiðslu á þáttunum Málið.
En við gengum stoltir frá þáttunum okkar sem fengu þrjár Eddutilnefningar og sátu á topplista skjás eins.
Segir Daníel. En hver er ástæða þess að nú eru þessir þættir aðgengilegir?
Ástæðan er í rauninni bara sú að þetta er orðið gamalt efni og Skjárinn er löngu hættur að sýna það. Við pældum í að gefa þetta út á Dvd, en kostnaðurinn var of hár og ljóst að það borgaði sig engan veginn. Svo hefði ég þurft að skipta út miklu af tónlistinni, en það er kosturinn við að vinna í sjónvarpi, stefgjöldin eru coveruð.
Daníel segir að málefnin sem urðu fyrir valinu í þáttagerðinni hafi verið þung, alvarleg og mjög tilfinningarík, ef svo má að orði komast.
Þátturinn tók fljótt þá stefnu, enda vorum við að vinna fyrir áskriftarsjónvarp sem þurfti að selja áskriftir og það er einhvernveginn auðveldast að selja drama.
Barnaníðsþættirnir voru það efni sem hafði djúpstæðust áhrif á Daníel. Upprunalega var því málefni ætlaður einn þáttur en þeir urðu heilir þrír.
Ég og Sölvi eyddum báðir þremur mánuðum í að þykjast vera 9-12 ára stelpur á einkamálum. Vinnan við gerð þáttanna opnaði virkilega augu manns við hversu mikill viðbjóður er til. Þegar við gerðum þátt um nauðgunarlyf þá fengum við að heyra mikið af sögum sem maður hreinlega trúði ekki. Sama má segja um vændisþáttinn og spilafíknarþáttinn.
Til að sinna framleiðslunni fyrir Skjá einn stofnaði Daníel framleiðslufyrirtækið Majestic Productions ásamt Erlendi Sveinssyni. Í nafni þess fyrirtækis hafa þeir framleitt Málið og aðrar seríur fyrir Skjáinn.
Á milli fyrstu og annarar seríu af Málinu gerðum við þætti sem hétu Óupplýst, leikna seríu um drauga og andatrú á Íslandi en þessa dagana hef ég aðallega verið að gera auglýsingar ásamt öðrum margvíslegum verkefnum. Þá gerði ég heimildarmynd fyrir Rúv um handboltamennina Guðjón, Björgvin og Aron sem hét Hringfararnir.
Fleiri seríur sem eru á teikniborðinu og er Daníel í sambandi við Skjáinn um framleiðslu þeirra. Auk þess er hann með handrit í fullri lengd í smíðum ásamt nokkrum öðrum heimildarverkefnum.
Fjöldi útskrifaðra nemenda úr Kvikmyndaskóla Íslands voru virkir þáttakendur í verkefninu Málinu.
Erlendur Sveinsson sem stofnaði Majestic Productions með mér og framleiddi og skaut mikið af þáttunum. Snædís Snorradóttir kom inn í 3ju seríu og framleiddi. Dagur de’medici skaut nokkra þætti ásamt Anton Smára Gunnarssyni. Í crewinu voru margir úr skólanum, svo sem Logi Ingimarsson, Ari Birgir Ágústsson, Jónína Guðbjörg, Eyjólfur Jónsson, Haraldur Ari og margir fleiri. Mjög margir leikarar úr skólanum tóku að sér hlutverk en þar má meðal annars nefna Lönu Írisi Dungal, Vivian Ólafsdóttur, Kristínu Leu, Önnu Hafþórs, Bylgju Babylons, Monika Ewa, Tryggva Frey, Jóhönnu Heiðdal og Ottó Gunnars.