Guðni Líndal Benediktsson í MA nám til Skotlands – Hlýtur styrk til námsins
Árið eftir að ég útskrifaðist gerði ég tvær stuttmyndir fyrir útskriftarnemendur á leiklistarbrautinni í Kvikmyndaskóla Íslands og einbeitti mér að því að skrifa eins mikið og ég gat.
segir Guðni Líndal Benediktsson leikstjóri og rithöfundur en hann útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012.
Ég reyndi að koma stuttmyndunum mínum á sem flestar hátíðir til að vekja á þeim athygli og það heppnaðist í flestum tilfellum. Cannes, RIFF og Reykjavík Shorts and Docs ber þar helst að nefna, en stuttmyndin mín “No homo” hlaut þar fyrstu verðlaun fyrir “Best Icelandic short”. Eftir það tók ég mér pásu frá leikstjórn og prufaði að vinna á setti á stórum myndum eins og Thor: The Dark World og Hross í oss. Eftir það skrifaði ég mína fyrstu skáldsögu sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2014, Leitin að Blóðey, en framhaldið af henni kemur út í október næstkomandi.
Guðni er á leið til Skotlands í haust þar sem hann hefur MA nám í handritsgerð hjá Screen Academy en þar nældi hann sér í mikilvægan styrk sem aðeins er veittur einum til tveimur nemendum ár hvert, Garrick Scholarship.
Ég fann þetta nám fyrir tilviljun. Kærastan mín er í námi hérna í Edinborg og ég rakst á þetta í gegnum hana. Lýsingin á áföngunum er verulega girnileg og staðsetningin heillar virkilega. Þetta eru þrjár annir, frá september 2015 – september 2016 og ég kem út úr því með mastersgráðu í handritsskrifum.
Guðni segir námið vera dýrt þar sem Ísland er ekki hluti af ESB en hann hafi átt því láni að fagna að fá helminginn af skólagjöldunum, 6000 pund, niðurgreiddan með skólastyrk fyrir erlenda nemendur.
Ég var búinn að kynna mér alla aðra styrki á svæðinu en ég gat ekki sótt um neinn af þeim vegna þjóðernis þannig að ég var búinn að gefa upp alla von og sætta mig við eilífðar ánauð í dýflissum LÍN. En svo fékk ég póst á mánudegi frá skólanum um svokallaðan Garrick scholarship sem ég gæti sótt um, en hann fá einn til tveir nemendur á ári. Ég samdi langt og gott bréf til þeirra, sendi það á miðvikudegi og fékk að vita það á föstudegi að ég hafi fengið hann. Allt hérna sem tengist styrkjum og skriffinsku virðist talsvert skilvirkara og fljótlegra en heima.
Guðni segist ekki geta svarað því hvaða frásagnir freisti hans helst en hann segir að epík hversdagsleikans hafi alltaf heillað sig.
Fæst okkar lifa jafn spennandi lífi og Jason Bourne en það eru þessi litlu móment í lífi okkar sem láta manni samt líða þannig. Að missa glas en grípa það í loftinu. Að renna á svelli en lenda á fótunum í góðu lagi. Að klára próf einni sekúndu áður en tíminn rennur út. Það er eitthvað við fólk sem upplifir sig epískt þótt það sé það ekki í stóra samhenginu. Þetta er frekar ónækvæmt svar en það er á þessari bylgjulengd sem mig langar að prufa mig áfram.
Í vetur ætlar Guðni svo að byggja sér upp vígalegt vopnabúr af handritum sem ætlunin er að dreifa í allar áttir.
Ég vil auðvitað leikstýra minni fyrstu mynd á næstu árum, en ég er líka mjög spenntur fyrir að skrifa handrit og selja þau framleiðslufyrirtækjum. Sömuleiðis hef ég aðeins fiktað við tölvuleikja-handritsskrif og er vægast sagt spenntur fyrir að halda því áfram. Flest tölvuleikjafyrirtæki gera þá kröfu að höfundar séu með MA í handritsskrifum þannig að þetta er alveg kjörið. Svo væri gaman að gera fleiri bækur, það virðist vera að virka ágætlega hingað til.
Kvikmyndaskóli Ísland óskar Guðna góðs gengis í Skotlandi en það er hægt er að fylgjast með honum á heimasíðunni www.gudnilindal.com m.a. horfa á stuttmyndirnar og lesa af honum nýjar fréttir.