Guðný Rós og Baunir og Vítamín
Við fengum að spjalla aðeins við Guðnýju Rós Þórhallsdóttur sem er útskrifuð frá Leikstjórn og framleiðslu hjá Kvikmyndaskólanum , en mynd hennar og Birtu Ránar Björgvinsdóttur “C-Vítamín” hefur vakið mikla athygli og verið sýnd á ýmsum kvikmyndahátíðum.
Sumum virðist bara ætlað að enda í kvikmyndaheiminum og það virðist hafa verið skrifað í stjörnurnar fyrir Guðnýju
Ég var mjög ung þegar ég varð heltekin af bíómyndum. Ég var fastagestur á vídjóleigu Kidda Vídjóflugu á Egilsstöðum, sem var bæði útaf því að hann var með helling af spólum og kisur. Ég elska kisur. Við áttum lengi vel ekki VHS tæki svo við leigðum það með spólunum hjá Kidda.Þegar svo það kom VHS tæki á heimilið fékk ég þráhyggju við að taka allar bíómyndir upp á spólur sem sýndar voru á RÚV. Á föstudagskvöldum voru það Disney myndirnar og svo fannst mér ég vera gera mömmu gífurlegan greiða að taka upp leiðinlegu kellingamyndirnar á sunnudagskvöldum. Ég var mjög skipulögð með safnið mitt en ég merkti hverja einustu spólu með tölustöfum og ritaði í bleiku VHS bókina mína hvað væri á hverri spólu. Stundum missti ég af byrjuninni á myndinni (sem var óþolandi og ég gat verið fúl í nokkra daga ef það gerðist) og þá fylgdi ekki titill myndarinnar með. Ef það gerðist þá horfði ég á myndina og bjó svo til titil sem mér fannst hæfa myndinni. Til dæmis varð ég of sein þegar ég tók upp myndina The Royal Tenenbaums. Tólf ára Guðnýju fannst titillinn “Tvíburarnir Síþreytandi” einhvernvegin eiga við þá mynd. Ég var háð því að taka myndir upp og raða þeim, merkja allt og fara svo aftur yfir safnið. Ég skráði mig meira að segja oft veika í skólann til að geta sinnt spólusafninu. Mamma og pabbi sitja uppi með u.þ.b. 500 VHS spólusafn, á hverri spólu 2-3 myndir.Þegar ég var 14 ára byrjaði ég svo að fikta við ljósmyndun, en þá átti ég ekki vél sem tók upp vídjó þannig að ég byrjaði að gera stopmotion myndbönd, sem voru svona fyrstu kynnin mín við kvikmyndagerð. Seinna eignaðist ég Canon eos 60d með vídjófítus og fór þá að fikta við hefðbundnari vídjógerð.En það var ekki fyrr en ég fór í LungA skólann 2014 sem ég fór í vídjó workshop hjá Hrund Atladóttur að ég uppgötvaði að ég gæti bara farið að læra þetta og vinna við kvikmyndagerð
Guðný er útskrifuð frá deild Leikstjórnar og framleiðslu hjá Kvikmyndaskólanum
Námið gekk mjög vel, enda nýtti ég mér það vel og yfir heildina litið er ég mjög ánægð með dvölina mína þar. Ég sökkti mér alveg í efnið og kynntist frábæru fólki sem mér þykir afskaplega vænt um og ég held að það sé það besta við skólann, kennararnir og nemendurnir sem maður kynnist. Námið er mjög “hands on” sem hentaði mér vel, þó það sé ýmislegt sem má bæta og fara betur varðandi skólann. Útskriftarmyndin mín “Dagurinn sem Baunirnar Kláruðust” með Atla Rafn Sigurðsson í aðalhlutverki vann Bjarkann, verðlaun fyrir bestu útskriftarmynd sem og verðlaun fyrir bestu mynd á framleiðsludeild. Sú mynd fjallar um mann sem lifir ágætu lífi eftir að uppvakningar taka yfir. En þegar baunadósirnar hans taka upp á því að hverfa fer hann að gruna að eitthvað misjafnt sé á seyði
Mynd hennar “C-vítamín” hefur farið víða og vekur mikla athygli
C-Vítamín er minning frá æsku. Byggð á sönnum atburðum “if you will”. Ég stundaði grimmt á yngri árum með vinkonu minni að halda tombólur til styrktar ýmissa góðra málefna en eyða svo ágóðanum bara í C-Vítamín freyðitöflur. Hins vegar komst aldrei upp um okkur, þannig að C-Vítamín er svona spekúlering hjá mér á því sem hefði gerst ef að svo hafði farið. En myndin var þriðju annar verkefnið mitt í Kvikmyndaskólanum
Framleiðsluferli hverrar myndar er sérstakt og því fylgja mismunandi áskoranir
Sko, handritið var ekki tilbúið fyrr en degi fyrir tökur. Lenti í svakalegum handritavandræðum sem og leikaravandræðum. En svona viku fyrir tökur var ég ekki með neitt, ekki tilbúið handrit, enga leikara og enga tökustaði. Ég fékk Önju Sæberg fyrst í hlutverk annarrar stelpunnar og svo stuttu seinna náði ég að plata frænku mína, Evu Sóllilju Einarsdóttur, í hitt hlutverkið. Hinsvegar breytti ég handritinu eftir að ég talaði við foreldra þeirra og þegar ég fékk þær með mér á fyrstu æfingu þá þorði ég ekki að senda þær með handritið heim. Var svo hrædd um að foreldrarnir myndu bara tjúllast og afturkalla leyfið. Ég meina, hvaða foreldri leyfir barninu sínu að leika siðblinda morðingja? Ég veit núna um nokkra.Það var einhver gífurlegur sjálfsefi að plaga mig á þessum tíma. Ég var löngu búin að hugsa Guðrúnu Ásmundsdóttur í hlutverk gömlu konunnar, en ég bara þorði ekki að hringja. Ég tók símann oft upp og ætlaði að hringja. Tókst meira að segja að hringja einu sinni en þá hringdi ég í vitlaust númer. Ég var skíthrædd við að hún myndi verða móðguð yfir því að ég hefði hugsað um hana fyrir þetta hlutverk, að henni myndi finnast þetta algjör vitleysa og ég væri bara kolklikkuð. Tvem dögum fyrir tökur hringdi þáverandi kærastinn minn, Ari Birgir (sem er meðframleiðandi og leikmyndahönnuður myndarinnar) fyrir mig í hana. Kom í ljós að hún hafði mjög gaman af handritinu og hlakkaði til að leika einhvern skúrk. Átti yndislegt samtal við hana í síma þar sem við ræddum karakterinn hennar. Henni fannst frábært að þessi vonda kona væri keðjureykjandi í gegnum myndina. Þá spurði ég hana hvort það væri í lagi, hvort hún reykti eða hefði reykt áður. Hún sagði mér að hún hefði aldrei snert sígarettu á ævi sinni. Ég hikaði og spurði hana hvort ég ætti ekki að breyta því þá eitthvað en hún var alveg á því að karakterinn hennar ÞYRFTI að reykja. Hún reykti næstum heilann pakka af Winston white þennan tökudag.Við áttum tökudaga í nóvember en öll myndin gerist að degi til svo við lentum í smá vandræðum með dagsbirtu – gátum bara haft 5 til 6 tíma tökudaga og tökudagarnir voru þrír. Svona aftur á litið gekk allt furðulega vel, miðað við að ekkert var tilbúið viku fyrir tökur. Ég var með frábært fólk með mér í liði og ég er þeim endalaust þakklát fyrir að hafa verið með mér í þessu
Myndin hefur þegar verið sýnd á nokkrum hátíðum og er enn á fullu flugi
“C-Vítamín” var frumsýnd á Shortfish á Stockfish Film Festival í febrúar. Þar unnum við verðlaun fyrir bestu mynd og fengum milljón króna tækjaúttekt frá Kukl sem varð til þess að “Baunamyndin” varð til í þeirri mynd sem hún er. Hún nældi sér líka í annað sætið á Gamanmyndahátíð Flateyrar og hlaut þar titilinn “Næstum því fyndnasta mynd Íslands”.“C-Vítamín” verður sýnd þrisvar á Leeds International Film Festival, 2. Nóvember og tvisvar 12. nóvember, en hún keppir þar við átta aðrar stuttmyndir um Audience Awards. Hún verður einnig á Hawaii International Film Festival 8. Nóvember í flokknum “Bad Habits die Hard” en “C-Vítamín” er eina íslenska myndin á HIFF í ár. Í desember verður hún svo á hátíð í Póllandi sem ég get ekki nefnt akkúrat núna
Guðný rekur ásamt Birtu Rán, fyrirtækið Andvara
Andvari varð til í lok árs 2015, en Andvari er samansettur af mér og Birtu Rán Björgvinsdóttur, kvikmyndatökukonu, ljósmyndara og kanínuunnanda. Það fyrsta sem við gerðum saman sem Andvari var myndband við ljóða- og slammgjörninginn “Elsku Stelpur”. Við höfum verið að einbeita okkur að tónlistarmyndböndum og stuttmyndagerð, höfum þegar gert tvö tónlistarmyndbönd og tvær stuttmyndir saman, en við stefnum á að gera mynd í fullri lengd einhverntíman í ekki of fjarlægri framtíð
Og hvernig lítur framtíðin út fyrir Guðnýju?
Ég er að skrifa og leikstýra útskriftarmynd Andreu Ýr á leiklist, förum í tökur í lok nóvember, nú nýtist reynslan sem ég fékk í “C-vítamín” en ég ætla ekki að skrifa mynd sem gerist öll að degi til, hehe. Annars erum við Birta núna að vinna í undirbúningi á tónlistarmyndbandi og þróun á sjónvarpsþætti með SKOT productions og Glassriver sem ég get því miður ekki sagt meira frá á þessu stigi
Við óskum Guðnýju góðs gengis og fylgjumst spennt með !