Háskólanám í kvikmyndagerð, BA gráða

Nú um áramótin undirrituðu Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Ástráður Eysteinsson fráfarandi forseti Hugvísindasviðs og Guðmundur Hálfdánarson nýr forseti Hugvísindasviðs viljayfirlýsingu þess efnis að að Hugvísindasvið starfi með Kvikmyndaskólanum að uppbyggingu náms á háskólastigi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ætlunin er að tveggja ára námsbrautir Kvikmyndaskólans og kvikmyndafræði innan Íslensku- og menningardeildar H.Í. verði metnar til BA-gráðu. Stefnt er að því að ljúka samningum um námið nú á vorönn, en í tengslum við samninginn mun  Kvikmyndaskólinn undirgangast úttekt óháðra aðila.

Námið eykur mjög möguleika kvikmyndagerðarmanna til menntunar og er því óhætt að segja að vilji skólanna tveggja til samstarfs sé stórtíðindi fyrir kvikmyndagerð á Íslandi. Mikill uppgangur greinarinnar hér á landi undanfarin ár hefur sýnt að þörfin fyrir háskólamenntað starfsfólk er gríðarlega aðkallandi og augljóst er að hlúa þarf að þeirri menntun hér á landi.

Vænta má að nemendur geti strax á nýju ári hafið nám sem að loknu matsferli verði metið til háskóleininga í hinu nýja námi í kvikmyndagerð, hafi þeir á annað borð þegar lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Þetta skipulag mun skerpa alla menntunarferla fyrir þá sem vilja nema kvikmyndagerð eða leiklist. Ungmenni sem vilja mennta sig í faginu geta byrjað á því að sækja kvikmyndabrautir framhaldsskólanna, t.d. í Borgarholtsskóla, Fjölbrautarskólanum í Garðabæ og víðar, síðan farið í grunnnámið í samstarfi KVÍ og HÍ, og að lokinni BA gráðu farið beint í meistaranám.

Fyrr í desember gerði Kvikmyndaskóli Íslands þjónustusamning við menntamálaráðuneyti til næstu þriggja ára og sætir þessi viðbót við það samningaferli miklum tíðindum fyrir kvikmyndamenntun á Íslandi.