“Hittarar & Krittarar”, ævintýri og hlutverkaleikur
Daði Einarsson er útskrifaður frá deild Handrita og Leikstjórnar hjá Kvikmyndaskólanum og útskriftarmynd hans, “Hittarar & Krittarar” verður sýnd í Bíó Paradís þann 15.apríl næstkomandi.
Daði hefur átt í nánu sambandi við ævintýri og vísindaskáldskap frá unga aldri
Hringadróttinssaga er mitt Stjörnustríð. Þegar ég var 6 ára þá sátum við fjölskyldan saman og horfðum á framlengdu útgáfuna af Hringardróttins sögu saman í stofunni heima, einn disk á kvöldi í heila viku. Í þeirri viku slökknaði á raunveruleikanum og þessi annar, einstaki heimur tók við og ég trúði honum eins og hann væri alvöru. Ég tók nótur og punktaði hjá mér. Þessi heimur var með reglur og virkaði á einstakan hátt. Ég horfði svo aftur og aftur á myndina. Endalaust. Ekkert greip mig eins mikið og Hringadróttins saga og það er kannski fremur augljóst að ég dreg mikinn innblástur þar og frá” Astrópíu” og mörgum svipuðum sjónvarpsþáttum sem reyndu einn hlutverkaspils þátt. T.d “Futurama”, “Community” og “The IT Crowd”. En mér fannst alltaf vera hægt að gera meira með formið. Nú kannski ergi ég Ottó smá, en “Astrópía” er alls ekki fullkomin mynd. Hún eyðir miklum tíma í annað hangs áður en þau byrja að spila leikinn, sem er skemmtilegi kaflinn, hálfri myndinni meira að segja! Samt sem áður, þegar ég var pjakkur þá greip hún utan um ímyndunaraflið. Íslensk fantasía! Hugrekkið sem hefur verið til staðar hjá Ottó og Gunnari! Ég elska Astrópíu, sama hvað fólk segir! Þetta er frábær mynd! Ég horfði á hana tvisvar meðan ég var að gera útskriftarmyndina mína. Einu sinni til að passa að mín væri, jú, sín eigin mynd sem vinnur með allt önnur þemu og persónur… seinna skiptið var það mér til skemmtunar.
Handritið að útskriftarmyndinni tók langan tíma að þróast og fór í gegnum fullt af breytingum. Í uppkastinu af myndinni voru 5 leikmenn og einn sögumaður. Teddi var ekki að leika galdrakall. Sögumaðurinn var hlutlaus persóna sem hafði enginn áhrif á söguna og ein persónanna var með byssur og læti. En ég hélt áfram að þróa þetta langt fram á önnina sem var samstarfsfólki mínu til mikils ama, Jönu framleiðanda þá sérstaklega. Ég held að seinasta uppkasti handritsins hafi komið tveimur dögum fyrir tökur… En það var löngu sett í steinn fyrir þann tíma. Ég er bara alltaf að breyta og þróa.
Í klippinu til dæmis, færði ég bardagann á hæðinni úr lokakafla myndarinnar í byrjun myndarinnar. Það jafnaði út handritsstrúkturinn, því núna byrjar myndin með skemmtilegum bardaga og endar með dramatískum bardaga. Ég klippti líka út senu þar sem persónur myndarinnar stökkva yfir gjá, sem var stór sena í handritinu og það tók hálfan dag að taka hana upp og leikararnir hötuðu að taka hana upp, þar sem þau stóðu á klettabrún í allavegana 15 metra hæð. En svona gerist, maður er alltaf að skrifa myndina uppá nýtt.
Þessi mynd er rosalega ólík öllu öðru sem ég hef gert, með stærð að gera. Það eru 41 nöfn í creditslistanum fyrir utan sérstakar þakkir. Og þegar ég var að gera stuttmyndir einn, þá var það bara ég að taka upp, skrifa, framleiða, leikstýra, með hljóð upptöku og allt annað sem gera þurfti. En í skólanum hef ég lært að treysta fólkinu í kringum mig eins mikið og hægt er og það er einungis fólkinu í kringum mig að þakka fyrir vel heppnaða mynd og þannig á það að vera.
Svo stefnir maður alltaf áfram. Mig langar að ungt fólki hafi meira efni til að njóta úr. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir eru alltof oft gerðir alvarlegir og raunsæir, en það vantar alltaf meira af skemmtilegu og furðulegu dóti fyrir unga fólkið á Íslandi. Reynum að fá ungt fólk í bíó á íslenskar myndir! Fantasíur og vísindaskáldskapur kemur vonandi sterkt inn á næstu árum!
Hér má njóta stiklu úr myndinni;
Eins og minnst var á áður, verður myndin sýnd þann 15.apríl næstkomandi í Bíó Paradís og er miðaverð eingöng 1000 ISK, en frekari upplýsingar eru í boði á viðburði sýningarinnar á Facebook
Við höfum trú á að Daði eigi sér bjarta framtíð í kvikmyndagerð og er þetta tilvalið tækifæri til að njóta frá upphafi