Hlín Jóhannesdóttir á leið til Toronto

Hlín Jóhannesdóttir, deildarforseti – Leikstjórn/Framleiðsla í Kvikmyndaskóla Íslands er á leið til Toronto á næstu dögum en þar hefst Toronto International Film Festival, TIFF, á morgun.
Við fengum Hlín til að segja okkur aðeins frá tildrögum ferðarinnar.

Mér var boðin þátttaka á framleiðsluvinnustofu (producers lab) hjá European Film Promotion sem þjónar því hlutverki að kynna og markaðsetja evrópska kvikmyndagerð á alþjóðavettvangi. Ég komst þarna inn ásamt 9 öðrum evrópskum framleiðendum og 10 kanadískum en markmiðið er að finna flöt á samstarfi í kvikmyndagerð milli Evrópu og Kanada. Þarna mun ég kynna kvikmyndaverkefni sem Vintage Pictures er að vinna með Ásu Helgu Hjörleifsdóttur sem heitir Only Castles Burning og vonandi finna væntanlega meðframleiðendur og samstarfsaðila.

Hlín hefur áður komið við sögu hjá TIFF
Árið 2013 kom ég þangað með myndina This is Sanlitun eftir Róbert Inga Douglas og það var frábær upplifun, hátíðin er umfangsmikil en vel skipulögð og flott í alla staði.

Samhliða kennslustörfunum er nóg að gera hjá Hlín.

Helst ber að nefna kvikmyndina Svaninn sem Ása Helga hefur einnig skrifað og mun leikstýra, en hún fer í tökur næsta sumar og Vintage Pictures framleiðir. Þá eru tvær kvikmyndir í fullri lengd í eftirvinnslu hjá fyrirtækinu og svo á starfið í Kvikmyndaskólanum einnig hug minn og hjarta.