Í KVÍ sér maður framfarir í sjálfum sér á hverjum degi

Ársæll Rafn Erlingsson útskrifaðist sem leikari úr Kvikmyndaskóla Íslands í síðustu viku og hann segir okkur frá sinni reynslu af náminu í skólanum.

 

Námskeiðin í skólanum sem við í leiklistinni fórum á voru gríðarlega góð. Það eru hæfir kennarar við skólann og umhverfið hvetjandi. Maður sér framfarir í sjálfum sér á hverjum degi, líkamlega og andlega og ég fann fyrir stuðningi allstaðar frá.

 

En námið er alls ekki fullkomið. Lengi má gott batna og mín upplifun síðustu önnina var að það eru góðir hlutir að gerast. Þetta er ungur skóli og þau eru alltaf að bæta sig.

 

Ársæll Rafn stefnir að því að nýta námið við ýmis  störf og verkefni í framtíðinni.

 

Ég ætla að nýta tengslanetið sem ég er búinn að byggja upp í að skapa. Maður hefur lært að vera ekki hræddur við nýjar áskoranir og ætla ég mér marga og góða hluti innan skamms. Mig langar og ég ætla mér að gera svo mikið, leika, leikstýra, syngja, vera með uppistönd, skipuleggja viðburði og svo mætti lengi telja. Framtíðin er björt.

 

Og framundan hjá Ársæli er eitt og annað spennandi.

 

Ég er að undirbúa mig fyrir hlutverk í sumar, skrifa nýtt uppistand og svo langar mig að halda áfram að gefa 130% í allt sem ég tek mér fyrir hendur. Mig langar að klára stúdentspróf í náinni framtíð og svo mögulega læra meira í leiklist, leikstjórn eða einhversskonar sviðslistum, mig langar svo margt!

 

 

Minn helsti styrkleiki myndi ég segja að væri hvað ég er ákveðinn. Það tekur því ekki að fara af stað með eitthvað verkefni ef þú ætlar ekki að gefa allt í það. Svo er ég góður í mannlegum samskiptum, á gott með að koma fram, frjór í hugsun, uppátækjasamur og mér finnst ég vera góður leikari líka.

 

 

Ársæll segir að það komi sér vel áfram í lífinu að langa að standa sig vel í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur og gera það eins vel og manni er auðið.

 

 

Ég var of lengi ósáttur við sjálfan mig og það sem ég var að gera í lífinu en námið beindi mér á rétta braut. Ég ætla að halda áfram á þeirri braut því hún gerir mig glaðan. Það er það sem ég brenn fyrir, að vera hamingjusamur og gera aðra hamingjusama í kringum mig.