Í skýjunum yfir viðtökum Webcam – viðtal við Magnús Thoroddsen Ívarsson
„Hér er engin íslensk sveitasæla, heldur erum við stödd í stórborginni Reykjavík. Nóg er af fiskum í sjónum og ef einhver stendur sig ekki er honum samstundis hent aftur út í. Og það er margt við myndina sem öskrar einmitt á núið.“ Svo kemst gagnrýnandi DV að orði um kvikmyndina Webcam í síðustu viku og gefur verkinu um leið þrjár og hálfa störnu.
Webcam var frumsýnd um miðjan mánuð og hefur vakið verðskuldaða athygli en framleiðandi kvikmyndarinnar, Magnús Thoroddsen Ívarsson útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands fyrir ári síðan.
„Við Toni höfum verið að gera video með Aroni Braga kvikmyndatökumanni í mörg ár. Þegar við svo réðumst saman í þetta kom í minn hlut að vera yfir-framleiðandi, aðstoðarleikstjóri og stýra hlutverkavali.“
Toni er Sigurður Anton Friðþjófsson handritshöfundur Webcam en eftir að hann kynnti Magnús hugmyndavinnu ákváðu þeir saman að ráðast í gerð myndarinnar.
„Uppsprettu Webcam má leita í margra ára samstarfi okkar þriggja sem erum bak við myndavélina og Telmu Huld Jóhannesdóttur. Anna Hafþórsdóttir kom síðar inn í verkefnið. Það er þó gaman að segja frá því að hún fór ekki í prufu fyrir þessa mynd enda hafði hún sannfært okkur í prufu fyrir stuttmynd í kvikmyndaskólanum á sínum tíma.“
Magnús hefur fengist við gerð myndbanda síðan hann fékk sína fyrstu myndbandstökuvél fermingargjöf. Það er óhætt að segja að reynsla hans sé þegar mikil á sviði kvikmyndagerðar enda brá hann sér í öll hugsanleg gervi listgreinarinnar við framleiðslu Webcam: ljósamanns, hljóðmanns eða förðunarmeistara – jafnvel vatnsdrengs. Magnús sinnti þar að auki ýmsu í eftirvinnslunni eins og aðstoð við klippingar, gerð aukaefnis eða vinnu við samfélagsmiðla.
„Eftir að ég fattaði að kvikmyndun væri meira en bara eitthvað geðveikt til að gera langaði mig verða bestur í því, og nám í KVÍ var eini góði möguleikinn til þess hér á landi.“
Magnús er eins og áður kom fram útskrifaður nemandi úr Kvikmyndaskóla Íslands og hefur margt jákvætt að segja um námið.
„Ég hafði á þeim tíma sem ég velti fyrir mér kvikmyndanámi heyrt að skólinn væri að verða virkilega góður og þegar ég frétti að tólf nemum væri hleypt inn í hverja braut þá gerði ég mér grein fyrir að ég myndi hitta fullt af fólki með sömu ástríðu og ég hef.“
Magnús telur dugnað og skipulag skipta miklu í undurbúningi verkefna og segir námið hafa haft gríðarlega þýðingu fyrir sig.
„Þessir tugir verkefna sem maður var látinn gera kenndi manni að taka ábyrgð, sýna dugnað og að sinna félagslega partinum við kvikmyndagerð. Sýndi manni vel hvað skipulag skiptir miklu. Þetta nám þjálfar mann verulega í þessu fagi, ekki bara í að svara því hvaða snúra er til hvers, heldur er um nám að ræða sem kennir manni hvernig maður á að gera þetta.“
Í þau tvö ár sem liðin eru frá útskrift Magnúsar segist hann hafa verið í miklu sambandi við skólafélaga sína úr KVÍ.
„Ég er í miklu sambandi við nánast alla í bekknum mínum og við hjálpumst mikið að, t.d. við gerð Webcam. Þorlákur Bjarki var hljóðmaður í 6 daga hjá okkur, Lovísa Lára framleiddi í 3 daga og sá um aðstoðarleikstjórn í 4 daga og svo færði hún okkur tvo unga nema úr skólanum sem aðstoðuðu. Við myndina starfaði mjög lítið crew, oft á tímum vorum við bara þrír bakvið myndavélina. Það má því sannarlega segja að þau sem komu þarna inn hafi spilað nokkuð stór hlutverk.“
Magnús er með nokkur verkefni í vinnslu, þar á meðal er hann að klára að endurskrifa eitt handrit.
„Toni er einnig byrjaður á nýju handriti. En allt gengur frekar hægt útaf þessari bévítans Webcam.“ segir Magnús hlæjandi.
„En við erum auðvitað í skýjunum yfir góðum viðtökum fólks við Webcam, við fórum úr því að sýna verkin okkar á Youtube yfir í almenna dreifingu hjá Senu“ en Magnús bætir við að vonandi verði hægt að byrja tökur á nýju efni í haust.
„En annars er ég að fara að taka upp rapptónleika hjá GKR vini mínum í kvöld í Gamla bíó og er mjög spenntur fyrir því.“