Ingibjörg Jenný Jóhannesdóttir

Ingibjörg Jenný Jóhannesdóttir útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu með mynd sína “Fyrir hönd keisarans”

“Þrír strákar á kynþroska aldri móta hvern annan í látbragði af ást og bræðralagi. Þeir fara í ferðalag sem inniheldur hlátur, grátur og sögur við varðeldinn þar sem yfirvofandi framtíð kemur að þeim eins og hraðakstur.”

Ingibjörg Jenný segir svo frá

"Ég og Elín Pálsdóttir gerðum þessa útskriftarmynd saman. Við erum búnar að kynnast vel síðustu 2 árin og komumst við að því að við eigum báðar stórt atvik í lífi okkar sem tengir okkur og ákváðum við að skrifa og leikstýra stuttmynd út frá þeirri upplifun.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum en það var ekki fyrr en ég byrjaði að gera árshátíðarmyndbönd á vinnustaðnum mínum sem að áhuginn á kvikmyndagerð kviknaði.

Upprunalega skráði ég mig í Handrit og Leikstjórn en eftir viðtalið ákvað ég að færa mig yfir í Leikstjórn og Framleiðslu. Í viðtalinu spjallaði ég við Hrafnkel Stefánsson námsstjóra. Hann útskýrði fyrir mér báðar brautirnar og fannst mér framleiðslan eiga betur við mig. Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þessa ákvörðun. Mér finnst framleiðslan mjög skemmtileg og sé ég mig mikið í því í framtíðinni."

"Ótalmargt hefur komið mér á óvart síðan ég hóf námið. Ég er búin að læra svo mikið. Ég áttaði mig til dæmis á öllu því sem ég vissi ekki um kvikmyndagerð og öllu þar á bak við áður en ég byrjaði.

Nemendurnir og kennararnir eru það sem gerir þennan skóla svona frábæran. Tengslanet skiptir svo miklu máli í þessum geira, enda er félagslífið í skólanum mjög gott, og hef ég fengið að kynnast fjöldanum öllum af frábæru fólki sem ég kalla vini mína í dag og hlakka mikið til að vinna með þeim í framtíðinni.

 

Til framtíðar er margt sem ég væri til í að gera. Draumurinn er að stofna eigið framleiðslufyrirtæki á Íslandi. En fyrst langar mig að vinna á settum og öðlast reynslu."